144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Nú er ljóst að fyrirhugaðar eru breytingar á virðisaukaskattskerfi Íslendinga og er það vel. Það skiptir máli að draga úr muninum á milli þessara þrepa og auðvitað vonumst við til þess að geta með tíð og tíma lækkað hærra þrepið enn frekar.

Ég heyri nú þegar umræðu hjá almenningi um það að þó svo þessi lækkun eigi sér stað hjá ríkinu þá muni hún ekki skila sér út í verðlagið hjá neytendum. Það er auðvitað áhyggjuefni. Allar forsendur eiga að vera til staðar til að þessi lækkun á virðisaukaskatti skili sér til neytenda. Því til viðbótar er verið að fella út vörugjöld þannig að ég skora á þá sem selja þjónustu með virðisaukaskatti í efra þrepi og þá sem selja vöru eða þjónustu sem vörugjöld eru á að láta neytendur sjá það þegar þetta kemur til framkvæmda. Þetta skiptir máli fyrir okkur öll. Þetta skiptir líka máli, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom inn á áðan, fyrir samkeppnisstöðu Íslendinga gagnvart erlendri vöru og þjónustu.

Annað er líka hægt að benda á í þessu sambandi. Það er traustið milli neytandans og þess sem er að selja vöruna eða þjónustuna. Traust skiptir miklu máli í samskiptum manna. Ég sendi ítrekaða áskorun til þeirra sem selja þjónustu að láta það sjást þegar þessi breyting hefur gengið í gegn.