144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beindi spurningu til hæstv. fjármálaráðherra í gær varðandi skuldaleiðréttingar og svokölluð auðkennismál en ég hef áhyggjur af því að ég hafi verið óskýr í máli og það skýri hversu illskiljanleg svör hæstv. fjármálaráðherra voru.

Spurning mín var margþætt að sönnu. Í fyrsta lagi vildi ég vita hvað væri fólgið í þessari undirskrift. Væru menn að afsala sér réttinum til áfrýjunar? Væru menn endanlega að veita samþykki sitt fyrir útreikningum ríkisins varðandi skuldaleiðréttinguna? Hvað væri fólgið í þessari undirskrift sem yrði að vera svo traust, annaðhvort með eigin hendi eða í gegnum rafræn auðkenni bankanna?

Í annan stað vildi ég vita hvernig stæði á því að menn gætu ekki notast við veflykil ríkisskattstjóra eða íslykil þjóðskrár til að staðfesta samskipti sín til að hafa þessi samskipti vegna þess að ég fæ ekki séð að það sé þörf á rafrænni undirskrift eins og óskað er eftir. Það vantar alla vega skýringar á því.

Í þriðja lagi vildi ég vita á hvaða forsendum þessi ákvörðun hefði verið tekin og hver hefði tekið ákvörðunina. Ég fæ ekki annað séð en það sé verið að nota skuldaleiðréttinguna til að þvinga landsmenn eða þá sem njóta skuldaleiðréttingar í viðskipti við eitt tiltekið fyrirtæki.

Þar sem ég fékk ekki svör við þessum spurningum mínum leyfi ég mér að beina því til hv. efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að hún taki þessi mál og setjist yfir þau með hagsmuni þeirra sem hlut eiga að máli í huga.