144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér um ferðasjóð íþróttafélaga. Í greinargerð með þingsályktunartillögu frá 130. löggjafarþingi, um að Alþingi álykti að veita árlega á fjárlögum fé í ferðasjóð íþróttafélaga til að standa straum af kostnaði við keppnisferðir, kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Íþróttaástundun er hverju byggðarlagi afskaplega mikilvæg. Um er að ræða eina mestu forvörn fyrir ungt fólk. Að auki eiga keppnislið einstakra sveitarfélaga drjúgan þátt í að efla samkennd og samstöðu íbúa sveitarfélaganna. […]

Ferðasjóði íþróttafélaga er ætlað að jafna þennan aðstöðumun og stuðla þannig að öflugra íþróttastarfi í landinu.“

Virðulegi forseti. Ef það er eitthvað sem við getum verið sammála um þvert á flokka í störfum okkar á Alþingi er það einmitt gildi íþrótta fyrir þjóðfélag okkar í víðasta skilningi, hvort sem er staðfest forvarnargildi eða huglægari þættir samkenndar og samstöðu. Ferðasjóður íþróttafélaganna var m.a. baráttumál okkar framsóknarmanna og var 1. flutningsmaður þá hv. þm. Hjálmar Árnason. Hv. þm. Kristján L. Möller var sá af núsitjandi þingmönnum sem studdi þetta mál og kom inn á það hér í ræðu um fjárlagafrumvarpið.

Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að vera vakandi yfir þessu máli sem hann barðist fyrir með okkur framsóknarmönnum og það er von mín að hv. nefndir menntamála og fjárlaga ásamt hæstv. ráðherrum verði vakandi með okkur í þessu máli og auki stuðning við ferðasjóð íþróttafélaga.