144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað mjög þægileg staða að taka sér að standa hér og mæla fyrir fleiri undanþágum í virðisaukaskattskerfinu, að taka sér þá stöðu að leggja út frá því (Gripið fram í.) að þar sem eitthvað er virðisaukaskattsskylt eigi annað ekki að vera það. Mér finnst við þurfa að taka þessa umræðu út frá ákveðnum prinsippum. Við getum endalaust spurt okkur hvers vegna ákveðnir hlutir séu inni og aðrir úti. Það er það sem ég var að benda á áðan. Þetta eru ekki heilagar línur.

Línan sem er unnið eftir varðandi fólksflutninga er þessi: Áætlunarferðir eru undanskildar. Aðrar ferðir, sérstaklega í afþreyingarskyni og þar er horft til ferðamannaiðnaðarins, komi inn í kerfið. Það þýðir, já, að rútuferðir sem ekki eru í áætlun, sama hvort verið er að flytja íþróttafólk eða hóp eldri borgara eða þingmenn eða aðra, koma inn í kerfið.