144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:45]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fjárlögum fyrir árið 2013 voru barnabætur rúmir 10,7 milljarðar. Með einföldum prósentureikningi er hægt að reikna það út að 11 milljarðar dugi ekki til að verðbæta það. En það er önnur saga.

Það er einmitt þrepaskipt tekjuskattskerfi sem hagfræðingar hafa sagt að sé betri leið til að jafna lífskjör í landinu, en með fjárlagafrumvarpinu er boðað að það eigi að hverfa frá því líka.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að ekki sé gert ráð fyrir því að breyta skerðingarmörkunum þannig að barnabætur byrji eftir sem áður að skerðast við 200 þús. kr. hjá einstaklingum og 400 þús. kr. hjá hjónum. Þá hljóta menn að velta fyrir sér hvað það er stór hópur og hverjir fái óskertar barnabætur samkvæmt þessum tillögum sem eiga að vera mótvægisaðgerðir við byltingarkenndum breytingum.