144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hvet þingmanninn til að lesa það sem við höfum lagt fram í gögnum um áhrif breytinganna á barnafjölskyldur. Þar kemur í ljós að dæmigerð fjölskylda, hjón með tvö börn, annað undir sjö ára aldri, eykur nokkuð umtalsvert ráðstöfunartekjur sínar vegna þessara breytinga. Meginþorri aukinna ráðstöfunartekna kemur vegna hækkunar á barnabótum.

Barnabætur voru skertar mjög verulega í ríkisstjórnartíð síðustu ríkisstjórnar. Á árinu 2013 var svo komið til baka með hækkun. Hún var umtalsverð. Hún var varin fyrir árið 2014. Nú erum við að bæta 1 milljarði þar ofan á. Þess vegna er það rangt sem sagt er að barnabætur muni ekki ná því sem þær voru árið 2013. Það er einfaldlega rangt.

Varðandi þrepaskipta tekjuskattskerfið kallast það á við mjög háan persónuafslátt. Mín skoðun er sú að flækjustigið í kerfinu (Forseti hringir.) sé orðið of mikið með mjög háum persónuafslætti, a.m.k. í samanburði við önnur lönd, og síðan þriggja þrepa (Forseti hringir.) tekjuskattskerfi.