144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ræðum þetta út frá prinsippum, sagði hæstv. ráðherra. Gott og vel, gerum það. Prinsippið sem ég vil leggja til grundvallar þessari breytingu er auðvitað að verja tekjulægstu hópana. Það finnst mér skipta langmestu máli.

Í allri þessari ótrúlegu rökflækju sem hæstv. ráðherra var með í máli sínu áðan er alveg ljóst að í jöfnu hans er alltaf ein stærð sem er afgangsstærð og það eru tekjulægstu hóparnir. Það hefur ekkert breyst frá því að hæstv. forsætisráðherra sagði á sínum tíma að hækkun matarskattsins kæmi langverst við tekjulægstu hópana. Ekkert af því sem hæstv. ráðherra sagði og ekkert sem er hægt að finna í þessari vanburðugu greinargerð breytir því.

Hæstv. ráðherra sagði að engir útreikningar hefðu komið fram sem breyttu með einhverjum hætti grundvelli þessa frumvarps. Hvað segir þá hæstv. ráðherra við þeirri könnun sem ASÍ hefur lagt fram sem sýnir að tekjulægstu hóparnir eyða tvöfalt hærra hlutfalli af ráðstöfunartekjum sínum í mat en tekjuhæstu hóparnir? Þar af leiðandi koma þeir verst út. Er þetta ekki grundvöllur (Forseti hringir.) til að endurskoða frumvarp hæstv. ráðherra?