144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hægt að hafa mörg orð um þetta mál og full ástæða til þess að fara yfir það nokkuð ítarlega eftir að hæstv. fjármálaráðherra hefur flutt framsöguræðu sína. Yfirlýst markmið þessara breytinga er að minnka bil milli skattþrepa í virðisaukaskatti og tryggja einföldun í kerfinu. Þá má spyrja á móti: Hvers vegna er ekki gengið lengra í einföldun og í að ryðja burt undanþágum úr virðisaukaskattskerfinu? Hér var í andsvörum áðan minnt á það að laxveiðar verða áfram undanþegnar virðisaukaskatti sem og baðþjónusta fyrir ferðamenn í atvinnuskyni. Hvers vegna er bara látið staðar numið við fólksflutninga í atvinnuskyni fyrir utan hefðbundna áætlunarflutninga?

Það má líka spyrja: Hvert er endamarkmiðið? Er það eitt skattþrep eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur stundum talað um? Þá held ég að menn verði að fara með gát í því að elta greiningar sérfræðinga um að tvö skattþrep í virðisaukaskatti séu óskilvirk. Það kann vel að vera að fyrir því sé hægt að færa efnisleg rök en því verður ekki á móti mælt að það er einungis eitt ríki af nágrannaríkjum okkar sem hefur farið þá leið að hafa eitt skattþrep, það er Danmörk. Öll önnur Evrópuríki hafa farið þá leið að vera með tvö þrep og sum jafnvel þrjú. Fyrir því eru félagsleg og framfærsluleg rök.

Ég held að spyrja þurfi margra spurninga í þessum málum. Mótvægisaðgerðirnar duga engan veginn. Hér kom fram í andsvörum áðan að barnabætur munu ekki duga til þess á uppfærðu verðlagi að fara yfir barnabætur eins og þær voru í fjárlögum ársins 2013. Með öðrum orðum, ríkisstjórnin hefur krukkað í barnabæturnar þannig að hin meinta mótvægisaðgerð núna gerir ekki annað en að færa heildarútgjöld til barnabóta til samræmis við það sem þau voru 2013. Það er engin mótvægisaðgerð í því fólgin.

Í annan stað hefur ríkisstjórnin dregið stórlega saman í greiðslu vaxtabóta. Vaxtabætur nýtast best tekjulágum heimilum með mikla framfærslubyrði. Þær hafa farið úr 17–22 milljörðum þegar mest lét í tíð síðustu ríkisstjórnar niður í 7,7 milljarða samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi. Það er næstum því niður um 2/3. Ég held að fólk í landinu átti sig ekki almennilega á því hversu hart ríkisstjórnin hefur gengið fram í því að skerða með þessum hætti hlut heimila með þunga endurgreiðslubyrði af lánum og lágar tekjur en í staðinn veitt mismuninum til heimila sem hafa litla greiðslubyrði af fasteignalánum sínum í gegnum hina svokölluðu leiðréttingu.

Mótvægisaðgerðirnar duga því ekki hætis hót. Það er búið að skerða stórlega framlög til vaxtabóta og aukningin til barnabóta dugar ekki til að ganga lengra en heildargreiðslur til barnabóta voru árið 2013. Það er engin mótvægisaðgerð í þessu, hæstv. fjármálaráðherra.

Í annan stað er mikilvægt að horfa á það að umgjörð lágtekjufólks vegna heimilisútgjalda er allt önnur en hjá hátekjufólki. Hæstv. fjármálaráðherra talaði hér af dálítilli lítilsvirðingu áðan um heimili sem eru í þeirri stöðu að þurfa að taka lán fyrir útgjöldum. Það er bara, hæstv. fjármálaráðherra, með fullri virðingu, veruleiki fjölda fólks. Það er veruleiki námsmanna sem hafa ekki tekjur. Þeir verða að byggja afkomu sína á lánsfé. Það er líka hlutskipti fólks sem á erfitt með að láta enda ná saman.

Það hefðu verið ýmsir kostir til þess að létta undir með lágtekjufjölskyldum, sérstaklega fyrst hæstv. ráðherra vill ekki að við vitnum til öryrkja í dæmaskyni um fólk sem hefur lítið milli handanna. Þá skulum við bara tala um lágtekjufólk fyrst það er viðkvæmt mál að nefna örorkulífeyrisþega.

Hlutdeild húsnæðis og matvæla í útgjöldum lágtekjufólks er yfirgnæfandi vegna þess að það er mjög litlu til að dreifa til annarra útgjalda en nákvæmlega þessara. Þess vegna hefði verið hægt að hugsa sér mótvægisaðgerðir sem hefðu getað virkað fyrir lágtekjufólk. Þær hefðu til dæmis getað verið framlag til félagslegs húsnæðis. Það er gríðarleg þörf fyrir félagslegt húsnæði. Á biðlistum á höfuðborgarsvæðinu eru upp undir 2 þús. manns og oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur segir að ástæðan sé stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Í viðtali við Ríkisútvarpið í síðustu viku sagði oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg að skortur á efndum á fyrirheitum ríkisstjórnarinnar um að sameina vaxtabætur og húsaleigubætur í eitt kerfi húsnæðisbóta og efla bætur til þeirra sem eru í leiguhúsnæði væri ástæðan fyrir því að ekki væri ráðist í uppbyggingu félagslegs húsnæðis af hálfu sveitarfélaganna. Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segir að ástæðan fyrir hinum félagslega vanda sé þessi ríkisstjórn og skortur hennar á efndum.

Það hefði verið hægt að leggja af mörkum í þennan pakka vegna þess að húsnæðiskostnaður er vissulega mjög stór hluti af framfærslu lágtekjufólks. Það hefði líka verið hægt að fara eftir tillögum sérfræðinga eins og þeirra sem unnið hafa fyrir samráðsvettvanginn um aukna hagsæld. Það eru tillögur um lækkun á álögum á innflutta matvöru til þess að vinna þar á móti hækkun á matvöru sem leiðir af breytingunni sem hér er lögð fram.

Það er mjög athyglisvert að þessi ríkisstjórn hefur engan áhuga á að byggja víðtæka samstöðu um tillögur sínar eða hugmyndir. Það er gengið fram með ystu öfgaafstöðu í þessu máli. Ekki er reynt að skapa jafnvægi með því að grípa til aðgerða sem sérstaklega nýtast lágtekjufólki og það er athyglisvert að þegar búið er að búa til samráðsvettvang um aukna hagsæld, þar sem reynt er að vinna með aðkomu allra stjórnmálaafla, aðkomu aðila vinnumarkaðarins og aðkomu sveitarfélaganna og stærstu fyrirtækja að stefnumörkun sem geti orðið þjóðinni til góðs, þá er ekkert gert með tillögurnar sem þar liggja fyrir um lækkun á álögum á innfluttum matvælum. Þeim er bara alveg ýtt frá. Ríkisstjórnin hefur því engan áhuga á víðtækri samstöðu um þessar tillögur sínar. Hún gætir þess að koma ekki með neitt inn í þær sem gæti orðið til þess að auka um þær frið eða skapa víðtæka samstöðu.

Þá komum við að sykurskattinum. Það er nú ekki neitt, segir hæstv. fjármálaráðherra, 21 króna á hverja gosdrykkjarflösku. Þá má spyrja hvort það sé sérstakt markmið að lækka gosdrykki í verði miðað við þau lýðheilsurök sem við höfum heyrt, þá stöðu sem þjóðin er í, það mikla heilsufarsvandamál sem vaxandi offita er. Hæstv. ráðherra segir að skatturinn sé of lágur til að gera gagn. Ja, það er þá hægt að hækka hann. Það er að minnsta kosti ekki skynsamlegt að leggja hann af ef hann er of lágur til að gera gagn. Það væri umhugsunarefni að hækka hann. Það eru alla vega ótrúleg rök fyrir því að leggja af skatt að segja að hann sé í sjálfu sér góður en hann sé ekki nógu hár, þess vegna sé best að leggja hann af. Ef við teljum í alvöru að mikilvægt sé að sporna við neyslu á sykri þá skiptir máli að hækka þennan skatt frekar ef menn telja að hann geti ekki gegnt hlutverki sínu eins og hann er nú.

Það er líka athyglisvert að nú er flokksbróðir hæstv. ráðherra að leggja fram frumvarp um að selja áfengi í búðum. Af hverju er þá hægt að leggja sérstök gjöld á áfengi sem selt væri í búðum en ekki hægt að leggja gjöld á hættulega vöru eins og sykur? Því að sykur er sannarlega hættuleg vara.

Það er líka vert að minna á það að hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur vakið athygli á því að þó að sykurskatturinn sé ekki hár dugi hann á 20 árum til þess að borga fyrir heilan Landspítala. Það væri þá hægt að nota hann til þess að byggja Landspítala. En hæstv. ráðherra hefur ekki áhuga á því. Eða hvort var það hæstv. ráðherra sem skrifaði bls. 207 í fjárlagafrumvarpinu eins og hún er eða embættismennirnir? Hver ber ábyrgðina á því að þar stendur að sykurskatturinn eigi áfram að vera við lýði? Hvort var það ráðherrann sem breytti tillögunum frá því sem stendur á bls. 207, frá því sem embættismennirnir höfðu lagt til eða embættismennirnir sem sneru ráðherrann niður af því að hafa sykurskattinn áfram? Við þurfum svör við því hver ber ábyrgðina á klúðrinu með bls. 207.

Virðulegi forseti. Forsendan fyrir því að þetta frumvarp skili einhverju fyrir heimilin í landinu er að lækkun skili sér út í verðlag. Við höfum empíríska rannsókn á því hvernig það gengur frá árinu 2007 þegar lækkaður var virðisaukaskatturinn úr 14% í 7. Og reynslan af því er algerlega skelfileg, hún er bara skelfileg. Það er ekkert sem bendir til að sú lækkun skili sér út í verðlag. Þess vegna er mjög hlálegt að lesa hér aftur og aftur í frumvarpinu fyrirvara eins og: „Þann fyrirvara þarf að hafa á matinu að hér er miðað við að áhrifin skili sér að fullu í breyttu smásöluverði.“

Hér er verið annars vegar að hækka mat, sem allir vita að verður hækkaður, og hins vegar að lækka ýmsar vörur og vegið meðaltal af því á að skila fólki ávinningi, nettóávinningi.

Ég segi þá á móti: Hæstv. fjármálaráðherra rakti hér áðan að lágtekjufólk ætti sjónvörp og lágtekjufólk keypti sér þvottavélar. Vissulega. En maður sem stendur með annan fótinn í eldi og hinn í ís hefur það ekki að meðaltali gott. Lágtekjufólk þarf alla daga að kaupa mat en það getur frestað ýmsum útgjöldum af þessum toga. Og mörg okkar erum ekki mikið í þessum útgjöldum. Ég get tekið dæmi af sjálfum mér, ég hef ekki keypt ísskáp síðan 2001, þannig að hann má lækka ansi mikið í verði til að vega upp á móti öllum þeim matarkörfum sem ég hef keypt á því tímabili. (Gripið fram í: … heppinn ef hann bilar.) Ég gæti reyndar verið heppinn eins og hv. þingmaður kallar hér fram í ef ísskápurinn bilaði á næstunni og ég fengi þar með notið forsjálni og umhyggju hæstv. fjármálaráðherra fyrir afkomu venjulegs launafólks en ég ætla að vona að ég þurfi samt ekki á því að halda.

Að síðustu þá hefur umræðan hér snúist mjög mikið um matvælaverð, vegna þess að það skiptir svo miklu máli. Þetta er grundvallaratriði. Mótvægisaðgerðirnar duga ekki til að vega upp hækkunina og þær eru langt, langt frá því og það er ekkert í þeim sem er sérstaklega ætlað að bæta hag lágtekjufólks. En þar við bætist stóra spurningin um áhrif hækkunarinnar í heild á menningarstarfsemi þjóðarinnar, á bókaútgáfu, þegar höfuðvandamálið sem við er að glíma í skólamálum er læsi. Og það er eiginlega stórsérkennilegt að á sama tíma og hæstv. menntamálaráðherra er á flandri um allt land að boða breytingar í menntakerfinu og m.a. að leggja höfuðáherslu á læsi skuli lausnin á því og sú eina handfasta tillaga sem frá ríkisstjórninni kemur í stefnubreytingu í álagningum á vörur vera sú að gera bækur dýrari.

Það getur vel verið að framtíðin felist í því að láta þá ungt fólk og láta börnin lesa innihaldslýsingar á abt-mjólk, sem er orðin mest auglýsta varan í þingsölum fyrr og síðar, en ég er ekki viss um að það verði til þess til langframa að auka veg læsis á Íslandi. Ég held líka að menningargeirinn í heild, tónlistin, þurfi að hugsa þessa stöðu mjög vandlega. Það er verulegt umhugsunarefni hvað bókaútgáfuna varðar sérstaklega. Það eru dæmi um það í nágrannalöndum okkar að bókaútgáfa á tungumáli, hvað þá eins og í okkar tilviki tungumáli sem er í mikilli vörn, njóti sérstakra skattfríðinda og fyrir því geta verið sterk efnisrök. Og ef hæstv. fjármálaráðherra efast um það þá legg ég til að hann ræði málið við hæstv. menntamálaráðherra.