144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel reyndar að þetta sé röng fullyrðing hjá hv. þingmanni og könnun Hagstofunnar hafi sýnt að matur lækkaði raunverulega um það bil um það sem ráð var fyrir gert á árinu 2007. Rannsóknasetur verslunarinnar á Bifröst tók þetta líka saman í síðustu viku og staðfesti það aftur sem Hagstofan hafði tjáð sig um að lækkanirnar skiluðu sér.

Varðandi barnabæturnar þá munu þær hækka um 2,8 milljarða á verðlagi ágúst 2014 borið saman við árið 2012 sem var síðasta heila árið sem síðasta ríkisstjórn var við völd. Sannarlega voru barnabætur hækkaðar mikið árið 2013 og þær munu halda áfram að hækka á næsta ári. Þær munu hækka um milljarð borið saman við yfirstandandi ár.

Ég ætla síðan að segja um lýðheilsumarkmið með sykurskattinum: Ég tel að sykurskatturinn sé ekki góður skattur, að vörugjöld á sykur séu ekki góð aðferð, hvorki til að afla ríkinu tekna né til að ná þessum lýðheilsumarkmiðum. Ég tel að þetta hafi, þegar kom til framkvæmdarinnar, einfaldlega verið nýr viðbótar 3 milljarða skattur á heimilin sem ég legg hér til að verði afnuminn. Ég er hins vegar í sama liði og hv. þingmaður þegar kemur að því að berjast fyrir bættri lýðheilsu í landinu en margar aðrar leiðir eru betur til þess fallnar en þessi.

Varðandi læsi þá tel ég líka að það sé mikil einföldun að segja að hækkun á virðisaukaskatti á bækur muni valda ólæsi í landinu. Því miður tel ég að það sé allt of algengt að það sé ekki bókakostur á heimilum sem standi betra læsi unglinga fyrir þrifum heldur eitthvert flókið sambland af því sem er að gerast í skólunum og á heimilunum og í samfélaginu að öðru leyti, að það valdi því að dregið hafi úr áhuga á lestri.