144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hæstv. fjármálaráðherra vekur ekki máls á tvennu: Annars vegar því af hverju ekki er reynt að vinda ofan af neikvæðum áhrifum matarhækkunarinnar með því að lækka álögur á innflutt matvæli eins og McKinsey hefur lagt til og eins og rætt hefur verið á samráðsvettvangnum um aukna hagsæld, og almenn samstaða er um hjá öllum nema þeim afturhaldsflokkum sem sitja í þessari ríkisstjórn.

Hitt sem stendur eftir er síðan bls. 207. Hvernig stendur á bls. 207? Af hverju er þar gert ráð fyrir allt annarri uppstillingu á þessu máli, hækkun í 11% en ekki 12%, og það sem meira er um vert, af hverju er þar gert ráð fyrir því að sykurskatturinn verði áfram við lýði? Mér leikur forvitni á að vita þetta og mér finnst að við þingmenn eigum rétt á að vita þetta.

Hér er lagt fram fjárlagafrumvarp sem er ekki í samræmi við yfirlýst markmið og það mun þurfa að koma fram breytingartillaga við það. Hver ber ábyrgðina á því? Af hverju er þetta gert með þessum hætti? Og annaðhvort ráðherrann eða embættismenn ráðuneytisins töldu mögulegt að fara í þessa breytingu án þess að hrófla við sykurskattinum þegar bls. 207 var samin. Þess vegna finnst mér að menn þurfi sérstaklega að rökstyðja það hvers vegna nauðsynlegt er að leggja hann af.

Ég er sammála hv. þm. Frosta Sigurjónssyni um að full ástæða er til að hafa þennan sérstaka skatt áfram út frá lýðheilsumarkmiðum, út frá kostnaðinum sem sykurinn veldur í heilbrigðiskerfi þjóðarinnar. Með sömu rökum og hæstv. fjármálaráðherra talaði gegn sykurskatti hér áðan er enginn vandi að tala gegn álögum á áfengi og álögum á tóbak. Þetta er bara aukaskattur á heimilin, vissulega. En það er ástæða til að skattleggja þessa vöru sérstaklega rétt eins og sykur.