144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal svara spurningunni alveg heiðarlega. Það er rétt, ég tel það galla á virðisaukaskattskerfinu að hafa svona langt bil milli þrepanna. Það sem gert var árið 2007 í þeim efnum var óskaplega misráðið, en það verður ekki upp tekið. Nú erum við að hreyfa okkur úr þeirri stöðu sem hér hefur verið undanfarin ár. Ég er algerlega andvígur því að hækka lægra þrepið á þeim forsendum sem hér er í boði. Það get ég ekki stutt með nokkru móti. Ég fór dálítið yfir það í ræðu minni af hverju.

Það breytir ekki hinu að maður getur út frá skattatæknilegum sjónarmiðum viðurkennt og horfst í augu við að það er ekki æskilegt að hafa þetta mikla bil á milli. Það veldur öðru sem er kostulegt að þar með er viðkomandi starfsemi virðisaukaskattsskyld en með svona lágan útskatt, eins og komið hefur í ljós með gistinguna, að menn geta verið að fá endurgreitt út úr kerfinu af því innskatturinn er hærri en útskatturinn þegar hann er bara 7%. Það er auðvitað ekki það sem til stóð.

Mér finnst hæstv. fjármálaráðherra enn þá vera fastur í þessu með tekjujöfnunarspurninguna eina saman, alla vega minntist hann ekki á neitt af því sem ég var að benda á að stæði sem rök bak við lágt þrep á matvæli og brýnar nauðsynjar af öðru tagi. Það eru til dæmis lýðheilsurökin og þau sjónarmið að hlúa að því að fersk, góð matvara sé eins viðráðanleg fyrir alla tekjuhópa samfélagsins og kostur er, sem sagt að reyna einfaldlega að halda matarkörfunni sem slíkri ódýrri og helst að sjálfsögðu að samsetning hennar sé sem heppilegust. Ég geri hiklaust greinarmun á því sem eru matvæli, heitt vatn og rafmagn og aftur á móti ýmis tæki sem er frekar hægt að bíða með að kaupa eða endurnýja o.s.frv.

Það eru veik rök að taka allt saman og segja að að meðaltali komi þetta nógu vel út af því einn byggir raðhús fyrir 42 milljónir(Forseti hringir.) fyrir 0,5 millj. kr. minna, annar kaupir flatskjá og sá þriðji gerir eitthvað annað, þar með sé meðaltalið í lagi. Það eru veik rök.