144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er enginn ágreiningur milli mín og hv. þingmanns um að það er skynsamlegt að ná fram ákveðnum markmiðum með því að hafa tvö þrep. Ég hef talað um það hér í dag að ég telji afar ólíklegt að við munum stíga það skref að fara í eitt virðisaukaskattsþrep, jafnvel þótt hægt væri að færa fyrir því ýmis einföldunar- og hagkvæmnisrök. Ég tel einfaldlega að það sé of margt annað veigamikið sem mæli gegn því. Þess vegna er ég talsmaður þess að þessar nauðsynjar séu í neðra þrepinu.

Við skulum velta því aðeins fyrir okkur. Ef matvara er einhver helsta nauðsynjavara heimilanna og matvaran er u.þ.b. 15% af útgjöldum hvers heimilis af heildarútgjöldunum, 15–16%, (Gripið fram í: Tuttugu.) hvað er þá með þessi hin 84–85%? Er það einhver óþarfi eða hvað? (Gripið fram í.) Hjá tekjulægstu hópunum, 85%. Eru það ekki nauðsynjar? Við horfum upp á það að þeir tekjulægstu eiga mjög erfitt með að ná endum saman og verja væntanlega að afskaplega litlu leyti ráðstöfunartekjum sínum í óþarfa, en samt vitum við að það er um 85% sem er annað en matvara. (LRM: Hvað stendur á bak við …?) Þar eru húsnæðiskostnaður m.a.,(Gripið fram í: Krónur.) föt, lyf, húsbúnaður, (Gripið fram í.) raftæki og svo margt, margt annað sem mun taka lækkunum.

Ég vek aftur athygli á því sem hefur komið hér fram í dag að með því að lækka þær vörur náum við hlutfallslega meiri áhrifum til tekjulægri hópanna vegna þess að þeir verja hærra hlutfalli ráðstöfunartekna sinna, hærra hlutfall útgjaldanna, til (Forseti hringir.) neyslu en hinir.