144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála því að það muni dýpka og breikka þessa umræðu mjög mikið að fá á hreint afstöðu mína til flatskjáa versus túbusjónvarpa og hvort ég hafi áttað mig á þessari tækni sem og hvort ég sé að gæla við hugmyndir um að setja lög um að banna innflutning á óþarfa. Það er mjög gilt efni inn í þessa umræðu.

Nei, ég er ekki að hugsa um það. Ég færði hins vegar fram rök fyrir því sem ég tel vera gild lýðheilsusjónarmið þar sem ég tel þessa ríkisstjórn á miklum villigötum. Ég veit alveg hvernig hægri menn nálgast oft þessa umræðu, að það eigi ekki að stýra neyslunni. En erum við ekki alltaf að því? Hafa ekki allir skattar í eðli sínu einhver áhrif einhvers staðar? Spurningin er bara hvernig þeir eru útfærðir. Þetta eru oft svo barnalegar röksemdafærslur. Við ættum þá bara að sleppa alveg hendinni af þessu og hafa ekkert fyrirkomulag á þessum hlutum.

Meðan við erum með tekjuöflunarkerfi sem byggir að hluta til á óbeinum sköttum, neyslusköttum, hafa þeir áhrif. Nú hefur það orðið að við hæstv. fjármálaráðherra erum algjörlega sammála um að það er ekkert á dagskrá annað en að við verðum með tvö þrep í virðisaukaskatti. Þá erum við strax að stýra. Við höfum strax viss áhrif með því til dæmis að velja hvaða vörur fara í efra þrepið og hvaða vörur í það neðra. Með því að hafa tilteknar vörur í neðra þrepinu erum við að segja: Við viljum hlúa að þessari þjónustu. Við viljum gera þetta aðeins ódýrara fyrir fólk. Við viljum draga úr kostnaðinum við matarreikninginn, hitann og rafmagnið en í staðinn er hærri skattur á ýmislegt annað. Er það ekki? Já, það geta verið flatskjáir. Ég verð bara að harka af mér, herra forseti, og nefna það tæki aftur. Erum við ekki sammála hérna í salnum um að það sé eðlilegra að breyttu breytanda að það sé hærri neysluskattur á flatskjái en fisk og grænmeti? Ég er það að minnsta kosti. Ég veit ekki um hv. þingmann. Það er kannski fornaldarlegt (Forseti hringir.) að hugsa svoleiðis.