144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að við tökum hér alvöruumræðu um markmiðið með þessum breytingum. Ég hef gert grein fyrir því allt frá fyrsta degi, allt frá því ég setti vinnu við þetta verkefni af stað í febrúar á þessu ári, að markmiðið er að gera virðisaukaskattskerfið skilvirkara sem tekjuöflunartæki fyrir ríkið. Það eru margar brotalamir í kerfinu eins og sakir standa. Þær birtast meðal annars í því að það eru rangir hvatar í því.

Í hádeginu var Félag viðskipta- og hagfræðinga t.d. með fund þar sem gerð var grein fyrir úttekt sem unnin hefur verið á stöðunni í veitingahúsageiranum; kaffihús og krár komu þar inn í myndina. Þar eru mjög sterkar vísbendingar um það að vegna þess hversu hátt eða mikið bil er á milli þrepanna séu sterkir hvatar til þess að færa vöru- og þjónustusölu í neðra þrepið sem með réttu ætti að vera í efra þrepinu. Þar hverfa undan skattlagningu jafnvel milljarðatugir.

Einföldun á kerfinu felst meðal annars í því að draga úr svona miklu gati. Það er í sjálfu sér alveg rétt að eftir sem áður eru tvö þrep, en stærsta einföldunin í þeim breytingum sem ég hef hér mælt fyrir felst í því að afnema með öllu vörugjöldin sem í dag leggjast á um 800 vöruflokka. Þetta finnst mér mikilvægt í tengslum við umræðu um markmið með frumvarpinu.

Varðandi það sem stendur til í framhaldinu þá er ég ekki tilbúinn með neinar frekari tillögur um breikkun á skattstofninum eins og fram hefur komið áður, en ég hef líka tekið fram að þessi vinna heldur áfram og hún heldur áfram m.a. til þess að skoða möguleika til frekari (Forseti hringir.) útvíkkunar. Það er gert ráð fyrir því að vinnan standi yfir allt fram til ársins 2016.