144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög mikilvægt tekjuöflunarkerfi, skilar mjög miklum tekjum. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að flýta sér hægt og gera ekki neinar afdrifaríkar breytingar á því fyrr en maður veit hvert lokatakmarkið á að vera. Mér finnst það vera tíðindi í þessu að lokatakmarkið er ekki á hreinu, ekki hvað varðar fyrirkomulag skattheimtunnar og enn síður, og þetta er ekki síður mikilvægt, hvað varðar mótvægisaðgerðir til að mæta þeim sem verða þó fyrir skakkaföllum vegna hækkunar á matarverði, svo dæmi sé tekið.

Það er rætt um vörugjöldin og það allt saman. Ég tók það skýrt fram í ræðu minni og hef sagt það áður að við fögnum því að afnema almenna vörugjaldið. Það er vissulega einföldun sem skiptir máli, það er rétt.

Við leggjum líka til í Bjartri framtíð að það verði farið í tollakerfið og reynt að efla samkeppni á matvælamarkaði á Íslandi af þessu tilefni.

Ríkið gefur og ríkið tekur. Það er rætt um byggingarkostnað til dæmis. Ég stend í viðamikilli endurgerð á húsi. Ég veit ekki hvort vegur hærra, lækkun vörugjalda á einhverju því sem ég þarf mögulega að kaupa, eða það að með hinni hendinni lækkar ríkið endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu iðnaðarmannanna sem þurfa að koma að þessu verki með mér. Ég veit ekki hvort ég kem út í plús eða mínus eftir aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra í sambandi við vörugjöld og lækkun á efra þrepinu til að kynna sér vel, og ég efast ekki um að hann hafi gert það, greinargerð um það hvernig lækkunin tókst í virðisaukaskattskerfinu árið 2007. Það var umfangsmikil eftirfylgni með þeirri lækkun. Því miður sýndi skýrsla sem var gerð í apríl 2008 að (Forseti hringir.) lækkunin skilaði sér ekki út í verðlagið. Það er eitthvað sem þarf að horfa vel á í þessu.