144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hann féllst á að þetta væri í heild sinni skattalækkun. Það gleður mig af því ég er ánægður með þetta frumvarp.

Síðan sagði hann að smásalan mundi taka þennan hagnað sem er af lækkun, sérstaklega á efra þrepinu. Þá er hann í raun að segja að það sé lítil samkeppni á Íslandi. Það vill svo til að í dag birtist frétt frá einu fyrirtæki sem selur og flytur inn raftæki, það er þegar búið að lækka skattinn, vörugjöldin, á sínum vörum. Þannig að menn njóta þess þar strax. Samkeppnin virðist vera það dugleg á þeim bæ að menn þurfa sem sagt að lækka það.

Síðan talaði hann um fátækasta hluta þjóðarinnar. Það er náttúrlega alvarleg umræða. Hann talaði um fólk sem þyrfti að lifa á 160 þús. kr. Nú hef ég dálítið verið að skoða þetta. Það sem ruglar alla þessa tölfræði er það að nokkur hluti skattgreiðenda, þ.e. námsmenn, fá lánað fyrir framfærslunni. Það eru ekki tekjur. Það er lán. Þeir fá lán fyrir framfærslunni. Þetta eru um 15 þúsund heimili sem eru í þeirri stöðu að fá lánað fyrir framfærslunni. Ég hef spurt að því hvort það geti verið að þau séu þá talin með mjög lágar tekjur eða engar tekjur í öllum þessum könnunum. Þetta finnst mér að þurfi að vera skýrara, nákvæmara, ef við ætlum að komast að því hvar hin raunverulega fátækt er.

Nú er það þannig að samkvæmt könnun Hagstofunnar eyða þessir fjórir tekjuhópar, lægsti fjórðungurinn o.s.frv., allir um 15% ráðstöfunartekjum sínum í mat, 85% fara í eitthvað annað. Ég geri ráð fyrir því að þeir með hæstu tekjurnar spari hluta af þessu þannig að þeir eyði minna en 85% í efsta þrepið. Það segir mér að það eru þeir sem eru með lægstu tekjurnar sem eyða meira í neðsta þrepið.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta geti verið.