144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki viss um að ég hafi náð spurningunni almennilega en ég ætla þó að freista þess að útskýra alla vega mína sýn á þetta og minn skilning.

Ég held að tekjulægsti hópurinn, sá hópur sem samkvæmt umboðsmanni skuldara hefur í raun ekki efni á að reka húsnæði og ferðast milli staða, þurfi alla vega mat. Hann þarf að geta keypt sér mat á daglegum basis og hann þarf að eiga fyrir rafmagni og hita ef hann er í húsnæði. Þetta er að hækka með þessum aðgerðum. Ég held því fram að það sé mjög óréttlátt og varhugavert að fara í svona skarpa hækkun gagnvart þessum hópi, sérstaklega, eins og ég gat um í ræðu minni, þegar ekki er farið í neinar alvöru og sannfærandi mótvægisaðgerðir.

Mér finnst það lykilatriði þegar AGS talar um virðisaukaskattskerfið þá segir AGS og OECD líka að stefna eigi að einu þrepi, allir borgi bara það sama, virðisaukaskattskerfið sé ekki heppileg leið til tekjujöfnunar. Það eru á margan hátt sannfærandi rök, en það verða að koma aðrar leiðir. Þær vantar að mínu viti.

Aðeins meira um vörugjöldin. Ég ítreka það að ég fagna afnámi þeirra, fagna því að almennu vörugjöldin eru afnumin. Ég vil bara ítreka þau varnaðarorð að gæta verður þess að þessi lækkun á vöruverði skili sér út í verðlag. Það hringir viðvörunarbjöllum í því sambandi. Það er verið að skera niður til Samkeppniseftirlitsins. Það er verið að skera niður til Neytendastofu. (Forseti hringir.) Það er verið að skera niður til Neytendasamtakanna. Þarna nefni ég þrjá aðila sem hafa gegnt lykilhlutverki í að fylgjast með samkeppni og verðlagi á Íslandi.