144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér hafa ýmsir stjórnmálamenn talað mikið um það að lækkunin muni ekki skila sér og jafnvel samtök líka, eins og ASÍ. Það er gleðilegt að nú þegar sjást þess merki að fyrirhuguð lækkun er byrjuð að skila sér. Það kom frétt í dag um að tvö fyrirtæki sem eru með raftæki hefðu ákveðið að lækka verð í samræmi við frumvarpið.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þegar títtnefndar breytingar komu fram um lækkun á virðisaukaskatti á sínum tíma, þá kom frétt á vef ASÍ, nánar tiltekið 3. apríl 2007, undir fyrirsögninni „Lágvöruverslanir skila lækkuninni“. Þetta kom frá ASÍ 3. apríl 2007. Þannig að það er svolítið sérstakt að heyra forustumenn ASÍ tala með þessum hætti núna. Er þetta fullkomið vantraust á þá sem voru í forustu ASÍ á þeim tíma?

Sömuleiðis kom Samkeppniseftirlitið með skýrslu um verðþróun á samkeppni á dagvörumarkaði í ársbyrjun 2012. Þar segir, með leyfi forseta:

„Verðhækkun dagvara var lítil á árunum 2006 og 2007. Lækkun á virðisaukaskatti á matvælum úr 14% í 7% sem og lækkun á vörugjöldum, einkum gosdrykkjum, í mars 2007 skilaði sér í samsvarandi lækkun á verði matvöru í smásölu.“

Þetta segir í skýrslu Samkeppniseftirlitsins sem kom út í ársbyrjun 2012.

Ég held, virðulegi forseti, að við þurfum að fara að skoða þessa stofnun eða þá sem tala hæst núna. Það er alveg ljóst að báðir aðilar hafa ekki rétt fyrir sér, svo mikið er víst.

Það má líka benda á úttekt Vísbendingar sem tók út afleiðingar af því að lækka aðstöðugjaldið á sínum tíma, sem var 1,3% skattur á atvinnulífið og var afnumið 1993. Niðurstaðan er algjörlega sú sama, að sú lækkun hafi skilað sér. Við hljótum að bíða eftir skýringum, sérstaklega frá ASÍ, væntanlega um að það sem samtökin sögðu á sínum tíma hafi ekki verið rétt. Það er alveg augljóst að hvort tveggja er ekki rétt.

Virðulegi forseti. Hér hafa verið ágætisumræður. Ég vona að þetta sé upptakturinn að því sem koma skal og að við munum fara málefnalega yfir skatt- og gjaldabreytingar. Ég hef verið ánægður að heyra í sumum sem ég átti kannski ekki von á að töluðu með þessum hætti hér í salnum í dag miðað við hvernig þeir hafa talað fram til þessa. Þá vil ég sérstaklega hrósa hv. þm. Steingrími Jóhanni Sigfússyni sem mér fannst tala málefnalega að stærstum hluta um þessar breytingar. Hann benti á að bilið væri of mikið í virðisaukaskattskerfinu og sömuleiðis undanþágur of margar. Það er það sem menn eru að tala um þegar þeir segjast vilja einfalda kerfið, þ.e. að hafa bilið ekki of stórt og undanþágurnar ekki of margar. Af hverju vilja menn það ekki? Það er vegna þess að það eykur líkurnar á skattundanskotum. Það getur jafnvel verið til komið og kannski mjög oft út af því að kerfið er svo flókið að það er ekkert sjálfgefið hvað á að vera á hverjum stað fyrir sig. Menn geta mætt þessu með stórauknu eftirliti og reynt að fylgjast með öllu því sem fyrirtækin gera og/eða hitt, reynt að einfalda kerfið þannig að meiri líkur verði á því að hlutirnir skili sér, skattarnir skili sér og hvatinn til undanskota sé lítill.

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað bæði á tollvörð tala um framkvæmd vörugjaldanna og sömuleiðis á forsvarsmenn lítils fjölskyldufyrirtækis, sem er búið að vera með sömu kennitölu frá upphafi, lýsa hvernig þessi vörugjöld eru í reynd. Við skulum átta okkur á því og það skiptir máli að við séum meðvituð um það að vörugjöldin eru eitt af síðustu afsprengjum gamallar stefnu sem kom meðal annars fram í því að það voru sett hérna lög í upphafi síðustu aldar sem kölluðust bann við innflutningi á óþarfa. Það er augljóst að þegar menn hafa verið að búa til þessi vörugjöld hafa þeir leitað að því sem var óþarfi og sett sérstakan skatt á það. Upphaflega var þetta tollur. Þegar við gátum ekki lengur verið með toll af því að við gengum í EFTA og sömuleiðis út af samningum við Alþjóðaviðskiptastofnunina þá breyttum við þessu í vörugjöld.

Í praxís er þetta svona: Ef viðkomandi aðili ætlar að flytja inn vöru eða selja vöru þá eru gríðarlegir hagsmunir að hún sé í tollflokki sem er ekki með vörugjald. — Virðulegi forseti. Það er spurning hvort hv. þingmenn muni í það minnsta, ef þeir vilja ekki hlusta, tala saman einhvers staðar annars staðar en hér því að maður er hættur að heyra í sjálfum sér. — Það eru gríðarlegir hagsmunir fyrir framleiðanda eða innflytjanda að vera, ekki með bestu vöruna, bestu markaðssetninguna eða bestu þjónustuna heldur er stóri hvatinn sá að hafa vöruna í réttum tollflokki sem ber ekki vörugjöld.

Undanfarin ár og áratugi hafa tollverðir setið með ljósmyndir af viðkomandi vörum eða eru jafnvel með vöruna til að bera saman og átta sig á því hvaða vara þetta sé nákvæmlega, t.d. hvort þetta sé brauðrist eða samlokugrill því að lengi framan af var annað með vörugjöld og er kannski enn þá en ekki hitt. Hvenær er viðkomandi tæki að rista brauð og hvenær er það að grilla brauð? Þetta er ekki gamansaga, þetta er raunveruleg saga. Svona er þetta.

Innflytjandinn má standa í því eða framleiðandinn að útskýra það og reyna að sýna fram á að ekki sé skorið í flís eða hún sé heil, ekki þvegin, til að sjá til þess að hún sé í réttum tollflokki og beri þar af leiðandi ekki vörugjald. Sumar utanhússklæðningar eru ekki með vörugjöld, aðrar eru með vörugjöld. Oftar en ekki fer þetta út í að kaupa þarf rándýra lögfræðiþjónustu til þess að gæta hagsmuna viðkomandi fyrirtækis. Hverjir borga fyrir þetta allt saman á endanum? Auðvitað eru það neytendur þessa lands.

Við skulum hafa þetta í huga, virðulegi forseti, af því að hér tala menn nær eingöngu um matvæli — það er það eina sem menn hafa verið að tala um. Menn tala ekki um skattalækkunina í heild sinni heldur reyna að draga einn þáttinn út.

Nú er til eitthvað sem heitir neysluvöruverðsvísitala. Hvernig ætli hún sé samsett þegar kemur að virðisaukaskattinum, ekki vörugjöldunum, bara virðisaukanum? 42% vísitölunnar eru vörur í hæsta skattþrepi, 25,5%, 23% vara eru í 7% og 35% eru ekki með neinn skatt. Nú geta menn örugglega bent á að það sé hægt að komast af án þess að kaupa allt það sem er í neysluverðsvísitölunni, en ég held að ef við erum sanngjörn þá viljum við að fólk hafi tækifæri til þess að kaupa þær vörur og þá þjónustu sem er í þessari vísitölu. Það er þess vegna fráleitt, virðulegi forseti, að taka bara einn þáttinn út en taka þá ekki í heild sinni — það er algjörlega fráleitt.

Ég held, virðulegi forseti, að við séum sammála um það að fatnaður sé nauðsynjavara, skór sé nauðsynjavara, hreinlætisivörur, lyf, húsgögn, húsbúnaður. (Gripið fram í: Ekki allt.) Virðulegi forseti, þetta fer úr 25,5% í 24%. Sama með eldsneytið. Hvort sem viðkomandi á bifreið eða ekki þá þarf hann í langflestum tilfellum að ferðast. Menn hafa hér áhyggjur af flutningskostnaði og segja að þetta sé ekki einn stærsti liðurinn í flutningskostnaði, það sé eldsneytisverð. Það er verið að lækka það með því að lækka hæsta þrepið. Menn hljóta að taka tillit til þessa.

Ofan á virðisaukaskattinn eru vörugjöld á byggingarvörur, raftæki og flatskjái — ég held að það sé ekki tekið sérstaklega fram núna þegar menn eru að selja þá, ég held að það sé bara talað um sjónvörp. Ég ætla að fara út í búð, virðulegi forseti, og kynna mér það sérstaklega. Ég verð að viðurkenna að þegar ég var búinn að hlusta á alla þessa flatskjáaumræðu fór ég að velta því fyrir mér hvort maður gæti keypt sér túbusjónvarp. Ég held að það sé alla vega ekki hægt að kaupa sér nýtt túbusjónvarp. (Gripið fram í: Ég …) Það sýnir kannski vandann þegar menn taka einhvern óþarfa og skattleggja sérstaklega. Ég er ekkert sérstaklega góður þegar kemur að tækni. Ég veit hins vegar að það er lítill munur á tölvuskjám og sjónvörpum, eða flatskjám, en hins vegar er stór munur þegar kemur að verðlagningu því að annað er með vörugjaldi. Ef menn ætla endalaust að eltast við þetta til þess að reyna að skattleggja óþarfann og reyna að hafa þetta þannig að fólk kaupi bara það sem það þarf á að halda og ekki neitt annað þá lendum við í svona rugli. Þetta er auðvitað ekkert annað en rugl.

Virðulegi forseti. Ég er ánægður að heyra að forsendur séu fyrir því að menn vilji í raun einfalda kerfið, fækka undanþágum og breikka skattstofnana. Menn hafa nefnt ferðaþjónustuna sérstaklega og ýmis dæmi henni tengd. Ég tek undir það. (Gripið fram í.) Ég er ánægður með að umræðan sé að þróast í þá veru, ef það verður. Það væri gott ef þessi umræða, sem verður vonandi góð, í það minnsta löng því að frumvarpið kemur svo snemma fram, yrði til þess að við næðum samstöðu um það sem við erum sammála um. Einhver mundi segja: Er það ekki alveg sjálfgefið? Það er ekki sjálfgefið.

Virðulegi forseti. Í tillögu til þingsályktunar um mótun viðskiptastefnu Íslands, sem ég er búinn að flytja nokkrum sinnum, ég held ég sé að flytja hana núna í fjórða sinn með öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, eru kannanir um kaup fólks eftir tekjustigum. Þar kemur skýrt fram að tekjulægsta fólkið kaupir til dæmis nær allan sinn fatnað hér á landi sem er nauðsynjavara. Það greiðir 25,5% virðisaukaskatt af honum. Á meðan erum við með sérstaka ríkisverslun, virðulegi forseti, sem er með skattafslátt á öllu milli himins og jarðar. Eins og ég las hér upp áðan og ætla að gera aftur þá eru vörurnar, ef farið á heimasíðu Fríhafnarinnar og vörurnar skoðaðar, flokkaðar með þessum hætti: Áfengi, snyrtivörur, sælgæti, tóbak, leikföng, ferðavörur, heilsuvörur, Dutyfree Fashion, annar fatnaður og að endingu Victoria´s Secret. Þetta eru vöruflokkarnir í ríkisfríhöfninni okkar sem sumir geta keypt í. Ef menn fara í bæjarferð rétt við hliðina þurfa þeir að greiða allt önnur verð.

Virðulegi forseti. Ég tel að það eigi að vera markmið ef menn eru í alvöru að hugsa um þá sem tekjulægstir eru að minnka í það minnsta muninn hjá þeim sem geta og hafa efni á því að ferðast og geta keypt vöruna á öðru verði og hjá hinum sem hafa ekki efni á því. Við hljótum að vera sammála um það.

Þegar við förum í einföldun og lækkun á gjöldum, hvort það eru vörugjöld eða annað slíkt, þá erum við auðvitað að styrkja íslenska verslun. Fólk vinnur í þeim verslunum. Við erum að styrkja íslenska atvinnuvegi. Við sjáum náttúrlega fjölmörg dæmi um það, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og við getum afgreitt það sem algjöran óþarfa en þetta eru bara mannheimar. Hæstv. ráðherra minntist hér á eitthvað sem heitir iPod. Um tíma voru níu af hverjum tíu, en það var fullt af þeim hér á landi, keyptir í útlöndum. Með því fyrirkomulagi sem við vorum með vorum við að færa störf frá Íslandi til annarra landa. Mér er vel við aðrar þjóðir en ég held að það sé markmið og okkar hlutverk að reyna að efla íslenskt efnahagslíf og atvinnustig og við gerum það auðvitað með því að styrkja íslenska verslun.