144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni, hann gerði vel þegar hann gerði fríverslunarsamning við Kína. Það var gott af því að ef Samfylkingin hefði náð sínu fram værum við í tollabandalaginu Evrópusambandinu og hefðum ekki getað gert þennan samning. En hæstv. ráðherra lét það ekki þvælast fyrir sér og vann ötullega að því og hafi hann þakkir fyrir. (Gripið fram í.) Við hefðum nefnilega (Gripið fram í.) ekki, ef við hefðum verið í tollabandalaginu, merkantíliska tollabandalaginu Evrópusambandinu, hefðum við ekki getað gert þann samning. Þar lækkuðu tollar en ekki nein vörugjöld, en það er annað.

Virðulegi forseti. Forustumenn ASÍ og Samfylkingarinnar sögðu að skattalækkanir skiluðu sér ekki til neytenda, það er það sem þeir sögðu. Ég var að lesa í blaði að nú þegar væru þær farnar að skila sér til neytenda bara með frumvarpinu. Síðan las ég upp úr frétt frá ASÍ á sínum tíma sem sagði að skattalækkanir hefðu skilað sér til neytenda. Það er kjarni málsins að ASÍ og Samkeppniseftirlitið sögðu að þessar lækkanir hefðu skilað sér.

Ef við erum að hugsa um tekjulága — ég sá þessar forsendur hjá ASÍ. Þar bera þeir saman tvö dæmi, annars vegar tekjulága með 100 þús. kr. í laun og 100 þús. kr. í lán og fjölskyldur með 600 þús. kr. í tekjur og engin lán, það eru forsendurnar. Segja svo: Tekjulægri borga miklu meira hlutfallslega í matvæli. Þetta er ekkert eins og Hagstofan hefur gert þetta eða neinn annar.

Ef við erum að hugsa um tekjulága þurfum við þá ekki að hugsa um húsnæði? Þurfum við ekki að hugsa um fatnað? Það veit auðvitað hver maður að menn geta gengið lengur í fötunum sínum, þetta snýst ekkert um það. Fólk þarf meira en matvæli, það vita allir. Hvað er að því? Af hverju er enginn hljómgrunnur hjá Samfylkingunni fyrir því að reyna að minnka muninn hjá hinum útvöldu sem geta keypt allt sitt á allt öðru verði en almenningur? Er þetta eitthvað sem menn vilja bara hafa svona, vilja þeir kannski auka muninn?