144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tölum um tekjulága. Hverjir tapa á háu húsnæðisverði? Eru það auðkýfingarnir í þessu landi? Hverjir tapa á því að lánin hækka? Eru það auðkýfingarnir? Nei, virðulegi forseti. Þessar aðgerðir eru skref í þá átt að lækka húsnæðisverð. Það hefur jákvæð áhrif út í verðlagið. (ÖS: Af því að það kaupir …) Þessar aðgerðir … (ÖS: Af því að það kaupir svo miklar fasteignir, fólkið sem á ekki bót fyrir boruna á sér. ) — Það skuldar, virðulegi forseti, það er grunnforsendan í tilbúnu dæmi ASÍ. Það skuldar.

Þegar síðasta ríkisstjórn hækkaði vörugjöld komu 1.000 milljónir — eitt þúsund milljónir — í lánin hjá fólkinu. Hverjir fóru verst út úr því? Auðkýfingarnir? Nei, tekjulága fólkið sem skuldaði.

ASÍ sagði 2007: Aðgerðirnar skiluðu sér til neytenda. Þeir sögðu það 2007. Skattalækkunin skilaði sér til neytenda. Samkeppniseftirlitið sagði í skýrslu 2012 að aðgerðirnar 2007 hefðu skilað sér til neytenda. Nú segir ASÍ eitthvað allt annað. Og einhvern veginn er ótrúlegur samhljómur á milli ASÍ og Samfylkingarinnar í þessu máli. (ÖS: Já, með öðrum.) Og meira að segja VR — þegar farið er út í aðgerðir til að styrkja íslenska verslun, samkeppnislög íslenskrar verslunar, sem er náttúrlega til þess fallið að bæta hag verslunarfólks, þá er rosalegur samhljómur á milli verslunarmannafélagsins, Samfylkingarinnar og ASÍ. En eitt er alveg ljóst. (ÖS: Hvað er að því?) að ASÍ getur bæði haft rétt fyrir sér núna og 2007. Það er algjörlega augljóst.

Spurningin er þessi: Hvaða ASÍ hefur rétt fyrir sér? ASÍ 2007 eða ASÍ núna? (Gripið fram í: Góð spurning.)