144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr: Hvað hefur breyst? Það hefur ekkert breyst. Þetta er það viðkvæmasta í þessu, það er bara hárrétt hjá hv. þingmanni og rétt að benda á það. (Gripið fram í.) Ég hef enga aðra skoðun hvað það varðar, það eru sömu rök þá og nú. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir það áðan og viðurkenndi að þetta er það viðkvæmasta í þessu. Svo að ég gagnrýni fjárlagafrumvarpið áfram, því að þó að maður styðji frumvarpið fær maður ekki alla sína hluti fram, þá vildi ég gjarnan að við mundum ganga lengra í því að samræma og einfalda virðisaukaskattskerfið, sérstaklega þegar kemur að ferðaþjónustu.

Hér voru nefndir ýmsir þættir, menn hafa nefnt veiðileyfi og ýmislegt annað, sem maður mundi allt vilja sjá þarna inni. Vonandi kemur það inn sem fyrst. En ekki verður á allt kosið í þessu. Ég ætla ekkert að þræta fyrir það að þessi þáttur málsins mætti vera betri.

Ég er hins vegar svo sannfærður um ágæti þess að fara í þessa stærstu einföldun skattkerfisins að afnema vörugjöldin að ég mun gera allt það sem ég get til að klára þessar breytingar. Það er stórkostlegt framfaraskref. (Gripið fram í.) Mér finnst það líka vera skinhelgi, ég verð að segja það alveg eins og er, að menn tali ekki í fullri alvöru um hlutina eins og þeir eru. Við erum með tvær þjóðir. Við erum með þá sem getur verslað í ríkisversluninni í flugstöðinni, sem getur farið til útlanda, keypt ýmislegt við öðru verði, og síðan þá tekjulægstu sem þurfa að borga alla skatta og gjöld af sömu vörum. Ég var nú að vona að hv. þingmenn Samfylkingarinnar, sem flestir ef ekki allir eru hið ágætasta fólk, (Forseti hringir.) eins og allt það fólk sem hér er, mundu nú aðeins velta þeim þætti málsins fyrir sér.