144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil gera athugasemd um framvindu fundarins sem varðar rétt minn sem þingmanns til að eiga orðastað við talsmenn ríkisstjórnarinnar. Þetta frumvarp sem við ræðum hérna er alveg sérstakt í þingsögu síðasta aldarfjórðungs að því marki að það nýtur ekki stuðnings annars stjórnarflokksins. Það hefur komið skýrt fram af hálfu Framsóknarflokksins að hann styður ekki þetta frumvarp. Þetta hafa ýmsir talsmenn flokksins í efnahags- og fjármálum sagt algjörlega skýrt í fjölmiðlum.

Ég átti hér í síðustu viku orðastað við hv. þm. Karl Garðarsson sem hefur lýst andstöðu við þætti í þessu frumvarpi. Hv. þingmaður sagði þá að hann kysi að bíða með málflutning þangað til þetta frumvarp yrði til umræðu. Hið sama hefur hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagt.

Það vill svo til að á mælendaskrá er enginn maður úr Framsóknarflokknum, og ég spyr: Á þessum fundi að ljúka án þess að við, almennir þingmenn, fáum tækifæri til að ræða við Framsóknarflokkinn (Forseti hringir.) um þetta mál og afstöðu framsóknarmanna til þess hvort þeir styðja eða styðja ekki þessa meginstoð fjárlaganna? (GÞÞ: Þú ert … framsóknarmanna.)