144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta er ákaflega sérkennilegt að þingmenn Framsóknarflokksins virðast bila í hnjánum. Þeir þora ekki að mæta til þessarar umræðu. Það er svo sem ágætt að þeir sitji hér og taki niður punkta en staðreyndin er sú að hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að það séu skelfilegar fréttir að menn velti fyrir sér að hækka það sem hann kallaði matarskattinn og er sannnefni. Það var líka hann sem á sínum tíma sagði að það væri margsannað að hækkun matarskattsins kæmi langverst við þá tekjulægstu. Og þá spyr ég: Af hverju þorir Framsóknarflokkurinn ekki að koma til þessarar umræðu? Framsóknarflokkurinn segir í fjölmiðlum að hann hafi fyrirvara við frumvarpið sem þýðir að það nýtur að minnsta kosti ekki óskoraðs stuðnings Framsóknarflokksins. Helstu talsmenn flokksins í fjárlaga- og efnahagsmálum hafa sagt að þeir mundu koma til þessarar umræðu til að gera þingheimi skoðanir sínar ljósar — og hvar eru þeir? Á þessari umræðu að ljúka án þess að þeir þori að taka til máls?