144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott innlegg í þessa umræðu og fína ræðu. Það eru margar ágætisábendingar, sérstaklega varðandi undanþágurnar og mér heyrist að hv. þingmaður sé frekar að hallast að því að við eigum að reyna að fækka undanþágunum til að auka jafnræðið í framkvæmd. Það finnst mér vera skynsamleg nálgun og verður helsta áherslan í því starfi sem enn er óunnið í fjármálaráðuneytinu og með þeim sem við munum starfa með við að halda áfram að betrumbæta virðisaukaskattskerfið. Það er sérstaklega með hliðsjón af því hvað við getum gert til að breikka skattstofninn og meta áhrifin af því að fækka undanþágunum og auka þannig skilvirkni kerfisins.

Ég leyfi mér að skjóta því inn í að það er athyglisvert að þeir sem eiga rætur sínar að rekja til Alþýðuflokksins sáluga skuli vera jafn harðir talsmenn þess nú að vera með þrepaskipt og jafnvel undanþáguríkt virðisaukaskattskerfi vegna þess að framan af var það eitt helsta baráttumál Alþýðuflokksins, sem síðar rann inn í Samfylkinguna, að vera með einfalt kerfi og helst án allra undanþágna, eins og Jón Baldvin Hannibalsson innleiddi kerfið strax í upphafi: Engar undanþágur og matinn í efsta þrep.

Við fengum í dag endurútreikning frá Rannsóknarsetri verslunarinnar á Bifröst sem hefur nú reiknað inn áhrifin af lækkun vörugjalda á mat og kemst að þeirri niðurstöðu að hækkunin sé rétt innan við helmingur af því sem rætt var um í síðustu viku af hækkun virðisaukaskatts á matvæli eða rétt að meðaltali 20 þús. kr. Fyrir lægsta tekjufjórðunginn eru það 16 þús. kr. og það verður auðvelt fyrir hv. þingmann að átta sig á því að fyrir barnafjölskyldur er það vel upp unnið og rúmlega það með hækkun á barnabótum.