144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:27]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ekkert sérstakt hafi komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra í andsvari við ræðu minni sem ég þarf að bregðast við. Eins og ég sagði er sannarlega rétt að fækka undanþágum og gera kerfið skilvirkara og sem dæmi tók ég ferðaþjónustuna með ferðaskrifstofureksturinn. Ég get tekið mörg fleiri dæmi úr þeim rekstri sem eru flókin og þannig gerð að mistök geta átt sér stað, hvort sem er við innslátt eða uppgjör eða annað, eða um að menn noti þetta kerfi til að færa milli virðisaukaskattsþrepa. Þetta er hið jákvæða við það sem er að finna í þessu frumvarpi.

Ég talaði líka um vörugjöldin og það er auðvitað þannig að margt í vörugjaldafrumvarpinu er barn síns tíma. Ég árétta það sem ég sagði áðan og mig langar að heyra hvort hæstv. fjármálaráðherra sé ekki sammála mér um að þrátt fyrir allt er þetta vörugjaldakerfi í raun öruggasti tekjustofn sem ríkið hefur hvað varðar þessa skatta af vörum og þjónustu. En það er svo margt í þessu kerfi sem er bjagað og er ruglingslegt og hreint og beint misræmi í og það hefur tekið allt of langan tíma að laga það. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi áðan að það væru vörugjöld á sjónvörpum en ekki á tölvuskjám sem er náttúrlega alveg með ólíkindum. Og dæmið af brauðristinni og samlokugrillinu er þannig að það er ótrúlegt að það skuli ekki hafa verið lagað. Svona getum við lengi talið.

Virðulegi forseti. Það sem ég ætla að ítreka er að ég óttast breytinguna á lægra þrepinu hvað varðar matvöruna. Ég er mjög hræddur við hana vegna þeirra mótvægisaðgerða sem boðaðar eru. Ég hef að vísu ekki séð það sem kemur frá Bifröst, ef það er eitthvað nýtt, en aðalatriðið er að mér finnst vera farið fullhratt og ég var dálítið hræddur þegar ég las frumvarpið og sá að undirbúningsvinnan tók ekki lengri tíma en raun ber vitni.