144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að bregðast aðeins við athugasemdum út af breytingum á endurgreiðslukerfinu vegna byggingarframkvæmda við eigið íbúðarhúsnæði, þ.e. við endurbætur og viðhald. Það er vissulega álitamál hversu lengi verkefnið Allir vinna á að fá að lifa og ég hef heyrt því hreyft í umræðunni í dag að við ættum kannski að trappa það niður hægar. Ég hef lagt til að við hverfum aftur til fyrra fyrirkomulags og trúi því að það sé verulegur hvati til að sækja endurgreiðslur með því að hafa 60% endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu við slíkar framkvæmdir.

Það er hins vegar hárrétt hjá þingmanninum að þetta eitt og sér dregur úr kaupmætti ráðstöfunartekna. Það gerir það, en aðrir liðir vinna það einfaldlega hratt til baka.

Einnig skil ég áhyggjur af hækkun matarverðs. Mér sýnist að samkvæmt útreikningum hjá Rannsóknarsetrinu spái þeir því að verðlag hækki um 2,3%, ef ég nota tölurnar hjá lægsta tekjufjórðungnum. Það er alveg augljóst, og hefur enginn talað um annað hér, að sérhver slík áhrif mundu kalla á mótvægisaðgerðir. Ég hef gert grein fyrir því hvaða mótvægisaðgerðir það eru. Tölurnar sýna að mótvægisaðgerðirnar koma hlutfallslega betur út fyrir tekjulægri hópana þannig að þá situr í raun og veru aðeins eftir spurningin: Eru menn í grundvallaratriðum á móti kerfisbreytingu? Þar til menn koma fram með útreikninga sem sýna að verðlag muni annaðhvort ekki lækka eða kaupmáttur ekki hækka (Forseti hringir.) þá er þetta mál farið að snúast einungis um slík grundvallaratriði og ég tel augljóst að við hljótum að geta náð saman um þá grundvallarbreytingu.