144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:32]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra segir hér í lokin og mér finnst vera þannig að bera þess vitni og þess vegna hef ég sagt að mér brá þegar ég sá hvað undirbúningstíminn hefur verið stuttur og hæstv. ráðherra talar ásamt öðrum um að nefndin sem fjallar um þetta og við hér á Alþingi getum farið frekar í þetta frumvarp og gert breytingar.

Virðulegi forseti. Í ræðu minni áðan taldi ég aðallöstinn vera hækkun á virðisaukaskatti á matvæli. Ég hafði ekki tíma þá en ætla að gera það nú og nefna rafmagn og hita. Það hefur komið fram að hækkunin er mikil og mjög mikil hjá fólki í dreifbýli og á nokkrum stöðum úti á landi þar sem fólk borgar hæsta orkuverð sem þekkist á Íslandi. Hækkunin á höfuðborgarsvæðinu er talin vera 3.500 kr., eins og kom fram í fréttum, á meðan þetta eru 8.500 kr. í dreifbýli. Það er hlutur sem þarf að skoða í mótvægisaðgerðum og við höfum liði í fjárlögum til að lagfæra þetta og það er niðurgreiðsla til húshitunar og annað slíkt.

Ég ætla einnig að tala um virðisaukaskatt á matvæli gagnvart vöruverði úti á landi. Það er þannig að flutningskostnaður sem er mjög hár leiðir til miklu hærra matvælaverðs úti á landi og hið ósanngjarna í því er að fólkið á Raufarhöfn borgar miklu hærri virðisaukaskatt af matvörunni en fólk gerir í Reykjavík fyrir uppskipun í höfninni. Þarna höfum við líka leið til að koma með mótvægisaðgerðir og það er í gegnum flutningsjöfnunarsjóð sem síðasta ríkisstjórn kom á og byrjaði þá með 200 milljónir sem mér sýnist núna vera búið að skera niður í 150 milljónir. Það er ekki mótvægisaðgerð. Stutt og laggott, til að súmmera þetta, þá getum við alþingismenn, og ég trúi því og treysti að stjórnarherrarnir muni leyfa okkur það, komið með tillögur sem jafna út þær hækkanir sem ég hef gert að umtalsefni.