144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi bækurnar aftur, ég er ekki með neina tillögu og hef ekki skoðað það sérstaklega hvort það væri yfir höfuð mögulegt að gera slíka breytingu fyrir íslenska útgáfu eingöngu en það kynnu þó að vera fyrir því alveg gild rök miðað við ýmsar aðrar undanþágur sem við höfum séð samþykktar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hér er sem sagt lagt til að engin slík undanþága verði.

Í þessum tillögum felst í sjálfu sér stuðningur við þau sjónarmið sem hv. þingmaður heldur á lofti, sem er: Er rétt að vera með ívilnun fyrir bókaútgáfu og sölu bóka á Íslandi með því að halda þeim áfram í neðra þrepinu? Slíkur grundvallarágreiningur er ekki uppi. En við þurfum sannarlega að velta því fyrir okkur hvaða áhrif þetta kann að hafa fyrir bókaútgáfuna og hversu slæm.

Varðandi læsi þá held ég að það sé mjög flókið samspil margra ólíkra þátta. Virðisaukaskatturinn er örugglega ekki berandi þáttur á þróun læsis á Íslandi en eflaust einn af þáttunum sem horfa ber til. Hér voru rakin dæmi þess að virðisaukaskattur á bækur væri víða mjög lágur og sums staðar alveg undanþeginn. Í Frakklandi er hann t.d. almennt mjög lágur en það eru undantekningar samt á því og gríðarlega flókið samspil af alls konar reglum. Ef menn gefa út erótískt efni lendir það í efsta þrepi. Það fer ekki alveg saman við það sem hv. þingmaður sagði, að menn þyrftu að hafa lesefni sem þeir hefðu áhuga á við hendina, í lægsta þrepi. Sumir þurfa að greiða virðisaukaskatt í efsta þrepi vegna þess að tímaritið sem þeir kaupa þar í landi er hlutfallslega með of margar auglýsingar miðað við annað ritað efni o.s.frv. Þeir eru með óendanlega flókið kerfi en viðleitnin er greinilega að ýta undir menningu (Forseti hringir.) þar í landi, sem stjórnvöld vilja styðja. (Forseti hringir.) Ég væri frekar talsmaður þess að vera með (Forseti hringir.) einfaldara kerfi, en hér er (Forseti hringir.) tillaga um að bækur verði með 12% virðisaukaskatt.