144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil hæstv. fjármálaráðherra þannig að hann sé a.m.k. opinn fyrir samræðu um að breyta þessari tillögu um 12% virðisaukaskatt á bækur, að tengslin við læsi verði skoðuð. Ég hallast nú að því að það sé best að fara bara alla leið og setja skattinn niður í 0% en við getum líka farið þá leið að það verði sett sérstök nefnd sem meti inntak erótíkur í bókum, sem raði þessu niður. Ég skal bjóða mig fram í hana með hæstv. ráðherra.

Í alvöru talað, þá held ég að það sé alveg rétt að virðisaukaskatturinn einn og sér sé ekki aðalmálið þegar kemur að læsi, en það er hins vegar rétt að við sjáum marktæk tengsl í þeim löndum sem við erum að skoða í kringum okkur milli hækkandi virðisaukaskattsprósentu og færri nýútkominna bóka. Bókaútgefendur taka kannski síður séns, eins og maður getur sagt á slæmri íslensku, og fara síður út í það að taka inn nýja höfunda nema þeir séu alveg vissir um að þeir virki. Það er umhugsunarefni fyrir okkur að slík breyting geti haft áhrif á fjölda nýútgefinna bóka. Það hlýtur að hafa áhrif á læsi.

Ég velti því fyrir mér til að mynda þegar við skoðum læsi íslenskra barna hvaða áhrif það hefur haft að barnabókahöfundum, þeim sem skrifa efni fyrir börn, er ekki að fjölga og hefur ekki fjölgað undanfarin ár. Er það af því að við lyftum þessum bókum ekki nægilega mikið í samfélagi okkar? Eitt af því sem ég beitti mér til að mynda fyrir á norrænum vettvangi var að taka upp norræn barnabókaverðlaun. Við getum velt því fyrir okkur af hverju Astrid Lindgren fékk aldrei bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Menn sögðu alltaf: Jú, barnabækur, þær eru jafn réttháar og allar aðrar bækur. Samt fékk hún aldrei verðlaunin þó að hún hefði vafalaust átt þau skilið. Þetta er eitt af því sem við gerum í okkar samfélagi; það er ákveðin aðgreining. Þá er spurning: Hvernig getum við hvatt til barnabókaútgáfu? Örugglega ekki með því að gera bækur að dýrari vöru hvort sem það eru rafbækur eða prentaðar bækur.