144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er ekki viss um að þetta hafi áhrif. Ég er svo sem ekki viss um neitt í lífinu en við getum bara séð dæmin frá öðrum löndum. Þar sem virðisaukaskattsprósenta hefur verið lækkuð hefur haft þau áhrif að nýútgefnum bókum hefur fjölgað og þar sem hún hefur verið hækkuð hefur þeim fækkað. Við getum kosið að læra af öðrum löndum eða bara gá hvað gerist hér. Ég aðhyllist fremur fyrri kostinn.

Hvað varðar læsi þá er það alveg rétt að við gætum auðvitað sagt að það skipti líka máli að efla læsi með því að allir læsu leiðbeiningarnar með öllum græjunum sem lækka í vörugjöldum, ísskápunum og þvottavélunum, en það sem ég er auðvitað að tala um er inntakið sjálft, þ.e. skáldskapurinn. Það er held ég lykilatriði í því þegar við horfum á viðgang tungumálsins. Ég nefndi áðan fornsögurnar sem voru líklega lykilatriði í því að við héldum við okkar íslenska tungumáli í gegnum aldirnar af því að við sögðum sögur á þessu tungumáli. Læsi snýst mjög mikið um það að vilja lesa og hafa löngunina til þess að lesa sögu en ekki bara til að afla sér upplýsinga um ýmsa þætti.

Ég er hins vegar alveg sammála hv. þingmanni að hugbúnaður á eftir að nýtast í miklu meira mæli við kennslu og menntun og nám í framtíðinni. Það breytir því ekki að hvatinn til þess að lesa held ég að verði sá sami, þ.e. að vilja lesa skáldskap.