144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í dag auglýstu nokkrar verslanir sem versla með raftæki lækkun með hliðsjón af frumvarpinu, væntanlegum lögum, þannig að þetta er að virka svona hratt frumvarpið er farið að virka áður en búið er að samþykkja það. Þetta kemur náttúrlega öllum heimilum til góða.

Mjög margir á Íslandi eiga bíla, ég hef tekið eftir því, herra forseti — líka úti á landsbyggðinni og kannski sérstaklega þar — og þessir bílar bila. Ef varahlutir í bíla lækka umtalsvert þá á fólkið auðveldara með að gera við bílinn sinn, það segir sig sjálft. Það að fólk þurfi að kaupa ísskáp með lánum, þá tekur það 80% af láninu í staðinn fyrir 100% ef varan lækkar um 20%. Þannig að ég bara skil það ekki að þessi mikla vörugjaldalækkun komi ekki heimilum til góða, ekki síst úti á landi því þar þurfa menn kannski frekar bíla og þeir bila frekar á lélegum vegum en í Reykjavík. Ég næ ekki þessari svartsýni vegna þessa frumvarps því frumvarpið er einn pakki og heildarniðurstaða þess er skattalækkun sem kemur öllum heimilum til góða, að meðaltali 20 þús. kr. á heimili.