144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:55]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það fari ekkert á milli mála að lækkun vörugjalda og hækkun á matarskatt kemur þannig út fyrir fólk að það nýtist þeim sem eru með hærri tekjur miklu betur vegna þess að þeir hafa fjármuni til að nýta sér þessar lækkanir. Það er nú bara þannig með lækkun vörugjalda að með því er verið að ýta undir einkaneyslu. Er það það sem við þurfum núna? Við þekkjum það frá fyrri árum þegar verið var að kynda undir einkaneyslu, fólk hafði ekkert efni á því, en gylliboðin glumdu, þetta og hitt er að lækka. Ég hélt að við værum nýkomin út úr því hruni og að við þyrftum aðeins að draga andann og ekki keyra inn í neysluæði eins og var fyrir hrun. Ég hélt að við værum búin að brenna okkur nægjanlega á því.

Það á heldur ekki að ýta undir það hjá láglaunafólki að hægt sé að kaupa ýmislegt á lánum. Hækkanir á virðisaukaskatti á mat og lækkanir á vörugjöldum koma þannig út í neysluvísitölunni að það hefur áhrif á hækkun lána. Þannig er nú sá mismunur. Það hefur Starfsgreinasamband Íslands reiknað út. Þetta gerir ekkert annað en að hella olíu á eld gagnvart verðbólgunni. Við erum ekki búin að sjá fyrir endann á afleiðingum aukinnar neyslu í þjóðfélaginu sem Sjálfstæðisflokkurinn virðist ætla að kynda undir enn eina ferðina. Við bíðum bara eftir afleiðingunum þess og hverjir eigi að þrífa upp eftir þá.