144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[19:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma hér upp og ræða aðeins nánar um barnabæturnar við hv. þingmann. Nú er það svo að það verður mælt fyrir milljarðshækkun á barnabótum við 2. umr. fjárlaga og með því munu barnabætur losa 11 milljarða eða vera í raun rétt í 11 milljörðum, sem er á verðlagi ágústmánaðar hærri fjárhæð í barnabætur en gilti árið 2014. Það er líka hærri fjárhæð en gilti árið 2013, sömuleiðis hærri fjárhæð en gilti árið 2012 og árið 2011, þannig að í fjögur síðustu ár hefur ekki verið varið meiru til barnabóta en til stendur að gera á næsta ári. Þessu finnst mér mikilvægt að koma á framfæri vegna þess að hér er sífellt tönnlast á því að barnabætur séu ekki að hækka. Þær eru að hækka.

Það er fleira sem er verið að gera í barnabótum. Það er verið að auka skerðinguna með tilliti til tekna og þannig nýtist þessi vaxandi heildarfjárhæð betur þeim sem eru með lægri launin, en ég heyri að hv. þingmaður hefur sérstakar áhyggjur af þeim. Við þessar breytingar hækka barnabætur um 5 þús. kr. á hverjum einasta mánuði hjá hjónum með tvö börn þar sem annað er yngra en sjö ára upp í um 400 þús. kr. tekjur. Það er rétt að þá byrja skerðingarnar að draga aðeins úr hækkuninni en þær halda hins vegar áfram borið saman við núverandi kerfi. Það er ekki fyrr en við erum komin upp í heildartekjur hjóna um 790 þúsund, kannski 780 þúsund, (Forseti hringir.) sem hjón með tvö börn komast verr frá breytingunni en gilt hefur fram til þessa. Þessu er mikilvægt að halda til haga. Fyrir laun upp að 400 þúsund, (Forseti hringir.) þá hækka barnabætur um 12 sinnum 5 þús. kr.