144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[19:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fjárlögum fyrir árið 2013 samþykktu hv. alþingismenn að verja ætti í barnabætur 10.762 millj. kr. Það er vissulega lægri upphæð en 11 milljarðar en ef þær væru verðbættar færu þær yfir 11 milljarðana.

Ég er hissa á því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra telji það nægilegar mótvægisaðgerðir við slíkri kerfisbreytingu að hækka barnabætur upp í rétt rúmlega þá krónutölu sem samþykkt var í fjárlögum 2013. Eru það nægilegar mótvægisaðgerðir við þessa kerfisbreytingu?

Virðulegi forseti. Ég hef talað fyrir því að þurfi að skoða virðisaukaskattskerfið og ég bauð upp á málefnalegar umræður, hef gert það, um þær hugmyndir. En ég varð fyrir gífurlegum vonbrigðum þegar ég sá pakkann því að auðvitað er ekki hægt að sætta sig við það að gera þessar breytingar án þess að við séum algjörlega klár á því að þær séu til bóta, jafni lífskjör betur en sú leið sem við búum við og bæti kjör þeirra sem verst standa í landinu. Það er ekki að gerast með mótvægisaðgerðir í formi barnabóta sem hækka um rúmar 200 millj. kr. fá árinu 2013.