144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[19:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hræddur um að sykurskatturinn þyrfti að vera ansi hár til að byggja heilan Landspítala því í heild sinni er þetta nú ekki það mikið miðað við þær tölur, það mundi taka mörghundruð ár eða ef sykurskatturinn yrði hækkaður upp í þúsund krónur á kílóið eitthvað svoleiðis. En spurningin er sú hvort hv. þingmaður hafi einhverja staðfestingu á því að hækkun sykurskatts hafi minnkað neyslu á sykri, ég er ekki alveg viss um það.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem fær þetta mál til skoðunar, þurfi að skoða betur ekki bara fjórðunga í tekjum heldur tíundir til að sjá hvort einhverjir hópar séu að lenda illa í þessu. Þá þarf að taka námsmenn út úr vegna þess að þeir fá lánað fyrir framfærslunni. Það skekkir alla tölfræði að þeir eru kannski með mjög lágar tekjur en fá lánað fyrir framfærslunni og lánið telst ekki til tekna. Ég vil að það sé gert í þessu skyni að lánið sé tekið sem tekjur hjá námsmönnum. Lánið eykur ekki bara ráðstöfunartekjur þeirra heimila sem fá það heldur eykur það líka skuldir, því á móti námsláni kemur ekki eign á skattframtali. Menntun er ekki talin eign á skattframtali eins og ef menn kaupa íbúð. Þannig að lánasjóðurinn gerir tvennt; hann eykur ráðstöfunartekjur heimilanna sem fá lánin og eykur skuldsetningu þeirra. Hvort tveggja er jákvætt því að við viljum meiri menntun.

Mér finnst að Hagstofan þurfi að endurskoða sína tölfræði. Ég mundi vera alveg sammála því að við þurfum að kanna þetta, hvort einhverjir hópar sem ekki eiga börn lendi hugsanlega í einhverjum vandræðum. Það þarf nefndin að skoða. Ég get hins vegar ekki alveg séð það í hendi mér hvernig það getur gerst að einstaklingar, sem væntanlega eru ekki öryrkjar eða aldraðir, því að þeir fá lífeyri, lendi í vandræðum með matarskattinn.