144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[19:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það verður að taka út þá hópa sem skekkja tölfræðina. Ég mun skoða beiðni mína með tilliti til þessarar ábendingar, sem er ágæt.

Varðandi barnabæturnar vil ég að það komi skýrt fram hér að mér finnast þær vera of lágar hvort sem við erum að breyta hér virðisaukaskattskerfinu eða ekki, þær eru of lágar. Tveir kennarar, samkvæmt þeirri skerðingartillögu sem nú er verið að leggja hér til, sem eiga tvö börn og annað undir sjö ára fá engar barnabætur. Mér finnst það röng stefna. Við eigum mikið frekar að stefna í þá átt sem Norðurlöndin eru að gera hvað barnabætur varðar, þar sem þær eru ekki tekjutengdar. Við erum ekki komin á þann stað, en við eigum að stefna þangað og að fá fólk fái greiddar barnabætur sem um munar. Við eigum hins vegar að taka tekjujöfnunina í gegnum þrepaskipt tekjuskattskerfi.

Varðandi sykurskattinn spyr hv. þingmaður mig að því hvort ég viti hvort sykurskatturinn hafi skipt einhverju máli varðandi sölu á sykruðum vörum. Ég veit það ekki. Ég veit ekki til þess að þær kannanir hafi verið gerðar. Það er ekkert alvarlegt að ég skuli ekki vita um það, en það er alvarlegt að leggja fram tillögur um lækkun sykurskattsins og hafa ekki hugmynd um hvort hann hafi skipt máli. Það má vel vera að hann þurfi að vera hærri til að hann fari að telja, og þá ættum við frekar að hækka hann. En mér finnst ekki ganga að setja það í skýringar með frumvarpi að ekki sé vitað hvaða áhrif hann muni hafa en hugsanlega eða kannski (Forseti hringir.) hefði hann betri áhrif ef hann væri hærri.