144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu. Ég hef tekið eftir því að hún hefur látið sig neytendamál miklu varða og meðal annars beitt sér fyrir betri merkingum á matvælum. Það er vel, en mér fannst eiginlega ekkert sérstakt rökrænt samhengi í því þegar hv. þingmaður talaði hér um sykurskattinn og sagði að kannski hefðu menn átt að byrja á því að gera merkingarnar áður en þeir færu að setja skatt á sykraðar vörur og gætu ekki einu sinni verið vissir um það í hvaða tegundum sykur væri að finna.

Þá langar mig til að benda hv. þingmanni á það að einn kollega okkar, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, hefur með mjög snjöllum hætti bent á það að jafnvel þó að sykurskatturinn sé hugsanlega ekki það hár að hann hafi beinlínis áhrif á neyslu, eins og mér fannst hv. þingmaður draga í efa, hefði hann eigi að síður áhrif vegna þess að hann hefur líka afleiðingar gagnvart hegðun fyrirtækjanna. Þetta var snjöll röksemd, fannst mér þegar ég las hana, vegna þess að ég hafði ekki hugsað þetta frá þeim sjónarhóli. Það gladdi mig að hv. þingmaður skyldi hafa þrek og þor undan ofurefli flokksagans til að láta þessa skoðun í ljósi. Tær snilld, fannst mér, af því að allt einfalt er snjallt þegar maður sér það og skilur. Þessi röksemd hv. þingmanns finnst mér undirstrika nokkuð vel mikilvægi þess að hafa sykurskattinn.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún geti ekki verið sammála þessari skoðun hv. þm. Frosta Sigurjónssonar sem ég hef gert að minni. Auðvitað vænti ég þess að þegar hv. þingmenn Framsóknarflokksins flykkjast að lokum í ræðustól til að gera afstöðu sína skýra muni hv. þm. Frosti Sigurjónsson leggja þetta mál fram með miklu einfaldari hætti en mér hefur tekist hér í endursögn.

Þetta fannst mér eiga erindi inn í umræðuna.