144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:30]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyrði einmitt þennan punkt hjá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, en ég tel reyndar að góðar merkingar mundu hafa mest áhrif á framleiðendur. Ef þeir þyrftu að setja upplýsingar um sykurmagnið framan á vöruna mundu þeir hugsa sig tvisvar um. Það er þess vegna sem matvælaframleiðendur fóru í dýrustu lobbíistaherferð allra tíma í Brussel þegar verið var að gera ný lög um merkingar á matvæli með þessari hugmynd að nota umferðarljós framan á matvæli. Þeir vildu ekki sjá það.

Mig langar að sjá niðurstöðuna af þessari lýðheilsutilraun, þessum sykurskatti. Hefur sykurneyslan minnkað? Ég vil gjarnan byggja ákvarðanir á upplýsingum og ég mundi vilja að landlæknisembættið svaraði því hvort þessi sykurskattur hefði haft einhver áhrif á sykurneyslu Íslendinga. Ég held að það sé til mikils að vinna að minnka hana. Þetta var bara skattheimta, það er mín afstaða. Mér fannst þetta frekar máttlaus lýðheilsuaðgerð en hún skilaði einhverjum tekjum í ríkiskassann, ég get alveg sæst á það.

Varðandi fyrirtækin skildi ég það þannig í fjárlaganefnd, þegar við vorum að reyna að fá upplýsingar um það hversu miklu þessi skattur hefði skilað, að framleiðendur hefðu farið í að hamstra sykur í miklum mæli áður en reglurnar tóku gildi þannig að við fengum ekki almennilegar upplýsingar. Það þótti skrýtið hvað þessi skattur hafði lítið skilað sér en þá var það af því að framleiðendur höfðu keypt sykurinn áður en reglurnar tóku gildi.