144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski rétt að ég taki það fram að þetta með sykurskattinn er mér svo sem ekkert hjartans mál, miklu frekar er ég tilbúin að berjast fyrir því að virðisaukaskatturinn á matvæli verði ekki hækkaður. Ég segi nú ekki að mér standi á sama hvað verður um sykurskattinn en ég bendi á að þetta er ekki sú lýðheilsuaðgerð sem talað var um, heldur leggst hann í rauninni sem skattur á fjölskyldur.

Samkvæmt rökum Sjálfstæðisflokksins aukum við neysluna ef við lækkum álögur. Þá velti ég fyrir mér hvort það að lækka efra þrepið niður í 24% muni ekki bara auka neysluna samkvæmt þessum kenningum, auka tekjur ríkissjóðs af þeim vörum sem eru í því þrepi og þá sé óþarfi að hækka virðisaukaskattinn á matvæli.

Lægri skattar auka tekjur, það er það sem ég hef svo oft heyrt sjálfstæðismenn segja.