144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði um að allir þurfi að kaupa sér raftæki og ég hugsa að það sé rétt hjá honum að flest algengustu raftæki séu til á flestum heimilum. Ég held hins vegar að fólk sem hefur lítið á milli handanna endurnýi þessi tæki mun sjaldnar, reyni að draga það eins og það getur að endurnýja slík tæki sér í lagi ef húsnæðisþátturinn og matarinnkaupin klára allar tekjurnar. Þess vegna sé ég ekki hvernig það að lækka vörugjöld á þessum nauðsynlegu hlutum hjálpar fólki ef skattur á mat er hækkaður á sama tíma. Ég sé ekki hvernig sú breyting á að koma fólki til góða því að ég held einfaldlega að peningarnir fari í aðra hluti en að kaupa þessi tæki. Þess vegna endurnýjarðu þau tæki helst ekki eða reynir að draga það eins og mögulega er hægt.

Varðandi hina spurninguna, með sterka skattstofna og að svíkja undan skatti, verð ég hreinlega að játa það á mig að ég náði henni ekki. Ég held ég verði að biðja hv. þingmann um að endurtaka hana í seinna andsvari sínu og þá mun ég svo sannarlega gera mitt besta til að svara henni.