144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það er rétt, ég verð að taka undir með hv. þingmanni að þetta er dálítið snautlegt, þ.e. einföldunin er snautleg þangað til kemur að 2. gr. Hv. þingmaður gleymdi að nefna hana. Ég fagna henni alveg sérstaklega: Leggja niður öll vörugjöld. Bingó. Það finnst mér ekki snautlegt. Það gleður mig vegna þess að þar er óskaplegur frumskógur sem er ástæða til að ryðja. Það er nægilega mikið til þess að gleðja mig og segja að þetta séu ekki snautlegar breytingar.

Varðandi veiðileyfi, það voru laxveiðileyfi, ég skildi það þannig, nefndi ég einmitt í ræðu minni að ástæða væri til að skoða það. Mér hefur lengi þótt ástæða til að skoða það ásamt fleiri undanþágum sem eru í virðisaukaskattskerfinu. Ég held að hv. nefnd, þegar hún fær þetta til skoðunar, ætti að skoða hingað og þangað hvort það séu einhvers staðar matarholur sem gera afgang ríkissjóðs enn meiri. Kannski er þá hægt að lækka efra þrepið eitthvað örlítið meira, en ég á nú ekki von á því að það geti farið niður í 23,5%.