144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að ryðja vörugjaldafrumskóginn. Það er það atriði þessa mál sem við í Samfylkingunni erum jákvæð gagnvart og teljum skynsamlega að verki staðið en sjáum ekki alveg ástæðuna til þess að hafa heildarumgjörðina með þeim hætti sem hún er.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann: Er full ástæða til að ryðja burt öllum vörugjöldum? Hvað með þau ágætu rök sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur fært fyrir sykurskattinum, að hann dugi í 20 ár til að byggja nýjan Landspítala í ljósi þess alvarlega heilsufarsvanda sem sykur er að skapa? Og vegna þess að ég trúi því að hv. þingmaður deili með mér þeirri skoðun að rétt sé að leggja vörugjöld á hættulegar vörur eins og tóbak og áfengi, af hverju ekki sykur? Er hann ekki sammála mér? Og af því að mér virðist hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, þótt ég ætli nú ekki að túlka um of orð hans — en er hann ekki sammála mér um að það sé ástæða til þess að leggja líka gjöld á sykur þó svo að önnur vörugjöld séu lögð af?