144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú ekki sáttur við það að menn kalli þetta ómengaða blinda trú, mér finnst það ekkert sérstaklega málefnalegt.

Þetta er einmitt það sem ég vildi gjarnan skoða í nefndinni, hvað lægsta tíundin notar mikið í mat þegar námsmenn eru teknir út, vegna þess að þeir fylla sennilega þá tíund. Námsmenn eru 12–15 þúsund, þeir eru um 10% af öllu vinnandi fólki og þeir fá lánað fyrir framfærslunni og skekkja allar þessar niðurstöður. Ég vildi gjarnan að lán frá LÍN yrði skoðað sem ráðstöfunartekjur og síðan yrði skoðað upp á nýtt hvernig tíundirnar líta út. Þá má vel vera, herra forseti, að komi í ljós að einhver hópur sem okkur hefur yfirsést hingað til lendi illa í því. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða.

Húsnæði, það þurfa nú allir að búa einhvers staðar, herra forseti, er það ekki? Og menn borga kostnaðinn við húsnæðið með einum eða öðrum hætti, sem leigu, sem vaxtagjöld o.s.frv. Húsnæði mun lækka. Það er meira og minna í efsta þrepinu. Og allur hráefniskostnaður við húsnæði mun lækka vegna þess að virðisaukaskattur lækkar úr 25,5% í 24%. Þessa njóta allir, jafnt lágtekjumenn sem hátekjumenn og það þurfa allir að búa einhvers staðar. Það erum við að minnsta kosti sammála um, eða hvað?