144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:32]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu eins og öllum má vera ljóst frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og sömuleiðis um brottfall laga um vörugjöld. Nú er það svo að minni mitt nær nokkuð langt aftur og til þess að vara þingmenn við mun ég í þessari ræðu fara jafnvel 90 ár aftur í tímann. (ÖS: Frá stofnun Framsóknarflokksins.) Nei, þá væru það nú orðin 100 ár.

Það sem ég ætla að nefna hér er að um 1960 var talið að landið væri komið í hinar mestu ógöngur með tolla sem hömluðu frjálsum viðskiptum. Þá tóku menn upp kerfi söluskatts, sem gekk nú úr sér og var kannski aldrei mjög fullkomið. Með virðisaukaskattinum, sem var kynntur fyrir mér árið 1977, var gert ráð fyrir því að hann væri sæmilega heildstæður með einu þrepi. Ég tel að virðisaukaskattur eigi að vera með einu þrepi. Í þessu frumvarpi er því miður ekki stígurinn genginn til enda, ég ætla hins vegar ekki að segja hver sú prósenta ætti að vera. Hún kann að vera einhvers staðar í kringum 20%, 21% ef virðisaukaskattur á vöru og þjónustu væri í einu þrepi. Því miður er það ekki gert nú en ég ætla samt sem áður að lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frumvarp í heilu lagi.

Þegar menn voru að hverfa frá tollum fundu þeir upp vörugjöld til þess að bæta upp tolla sem voru þá af innfluttum vörum. Vörugjöld voru almenn, hvort heldur varan var framleidd innan lands eða utan. Engu að síður varð vörugjaldakerfið mjög handahófskennt.

Þá ætla ég að fara 90 ár aftur í tímann og leyfa ykkur að heyra hvernig stjórnhyggjumenn hugsuðu fyrir 90 árum, reyndar 8. mars 1920. Þá eru í Stjórnartíðindum lög um heimild fyrir landstjórnina til að takmarka eða banna innflutning á óþörfum varningi. Hér segir, með leyfi forseta:

„Vjer Christian hinn Tíundi, af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Sljesvík, Holtsetlandi, Stórmæri, Þjettmerski, Láenborg og Aldinborg, gjörum kunnugt:

Landstjórninni er heimilt með reglugjörð eða reglugjörðum að takmarka eða banna innflutning á allskonar óþörfum varningi, og ákveður hún“, — landstjórnin væntanlega — „hvaða vörur skuli teljast til slíks varnings.“

Þetta æði er enn þá í ýmsum þingmönnum. Þeir telja að þeir geti stýrt neyslu landsmanna með handafli, með vörugjöldum, með mismunandi virðisaukaskatti, eftir þeirra geðþótta.

Árið 1924 er í Stjórnartíðindum reglugerð um bann við innflutningi á óþörfum varning og, með leyfi forseta, er þar talið upp:

„Fiskmeti allskonar, nýtt, saltað, hert, reykt eða niðursoðið.“

Síðan endar þetta hér eftir langa upptalningu: „Legsteinar“ teljast til óþarfa.

Hér í þessu frumvarpi er loksins gengið til enda það skref að fella niður vörugjöldin, reyna að samræma virðisaukaskatt, því miður ekki í eitt þrep heldur tvö. Hér er talað um matarskatt. Þetta er ekki matarskattur, þetta er ósköp einfaldlega virðisaukaskattur á vöru og þjónustu, og m.a. matvæli. Mér er algjörlega óskiljanlegt hvernig menn telja að þeir geti stýrt hér öllum sköpuðum hlutum, t.d. læsi með mjög lágum virðisaukaskatti á bókum og jafnvel engum. Menn telja jafnvel að það hefti íslenska menningu, að íslensk menning þoli ekki eðlilegan virðisaukaskatt. Bækur voru hér lækkaðar í þrepi virðisaukaskatts. Ég veit ekki til þess að læsi hafi aukist samkvæmt mælingum í PISA-könnunum þannig að það er algjörlega ómarkvisst.

Ég tel að ástand hér í landi sé þannig að það sé ekkert óeðlilegt að fólk fari í ferðir til útlanda til að kaupa vörur vegna þess að þær eru ódýrari en hér á landi, vegna þess að það æði sem hér er á mönnum til verðstýringar er þar ekki með sama hætti. Til dæmis: Af hverju er verð á hlaupaskóm hér á tvöföldu dollaragengi? Mér er það algjörlega óskiljanlegt. Af hverju þurfa menn að fara til útlanda til þess að kaupa sér myndavélar? Af hverju geta menn ekki fengið að kaupa og velja myndavélar í verslunum hér á viðráðanlegu verði?

Það er á það bent í greinargerð með þessu frumvarpi að sérfræðingar í skattamálum telji að það beri að afnema lægri þrep virðisaukaskatts til þess að ná fram skilvirku kerfi. Ég tek heils hugar undir þetta því að ég tel að virðisaukaskattur sé mjög slæmt kerfi til tekjujöfnunar. Tekjuskattskerfið, tekjuskattur, er skaplegra til þeirra hluta, skattafslættir, barnabætur og slíkt, en virðisaukaskattur er algjörlega óhæfur til tekjujöfnunar.

Menn telja hér að þeir geti ákvarðað verð á vöru og þjónustu og stýrt neyslu og ákvarðað hvað sé hollt og óhollt. Ég er algjörlega ósammála. Ég held að upplýstir neytendur séu fyrst og fremst færir um að stýra neyslu sinni til hollra hátta en ekki við þingmenn. Við skulum hins vegar búa til skilvirkt kerfi þannig að tekjur skili sér í ríkissjóð.

Í greinargerðinni eru taldir upp fimm flokkar vörugjalda. Fyrsti flokkur er þessi merki sykurskattur sem er býsna flókinn. Ég þekki engan Íslending sem hefur breytt hegðun sinni vegna þessa skatts. Sykraðar drykkjarvörur, jafvel drykkjarvörur með sætuefnum eru þarna undir líka.

Byggingarvörur 15%, heimilistæki, ísskápar og þvottavélar 20%, önnur raftæki og hljómflutningstæki 25%. Má ég spyrja: Hvaða manni eða konu datt í hug að ákvarða 15, 20 og 25% á þessum þremur vöruflokkum?

Hv. þm. Pétur Blöndal vitnaði hér áðan í það að gólfefni hefðu fengið á sig vörugjald til þess að vernda gólfteppaiðnað. Það er sem sagt arfur af þeirri verndarstefnu sem hér var við lýði fram undir 1960 og hefur tekið — ekki 50 ár, það virðist ætla að taka heila öld að snúa ofan af þessari verndarstefnu.

Ég segi einfaldlega: Hvers á íslensk menning að gjalda að það sé ekki hægt að spila nema fyrir offjár á hljómdiska klassíska músík vegna þess að hljómflutningstæki eru með 25% virðisaukaskatti? Ég segi því ósköp einfaldlega að hér er mál sem þingmenn verða eiginlega að koma sér saman um. En þeir koma sér náttúrlega ekki saman um það vegna þess, miðað við ræður þær sem hér hafa verið haldnar, að þeir vilja viðhalda stýringu á þessum hlutum og ákveða verðhlutföll og hafa þau helst eins og þau voru og að þau sé föst og óumbreytanleg þannig að framleiðsluaðstæður geti ekki breytt þeim.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort menn hafi hugmynd um það hvað vara kostar. Þegar ég hef spurt fólk að því hvort það viti hvað kóka kóla kostar þá hefur það ekki hugmynd um það. Það veit hins vegar hvað það borgar fyrir kóka kóla, það er annar hlutur. Það er ekki hægt að stýra neyslu með þessum hætti eins og menn hefðu viljað og það að hafa vit fyrir öðrum er í raun og veru ofstopi sem ég sætti mig ekki við. Ég vil fá að taka ákvörðun um það sjálfur og ég tel mig alveg færan til þess. Ég er hins vegar algjörlega ófær um að taka ákvörðun fyrir aðra um það hvað þeim henti best.

Ég tel að þetta tekjuöflunarkerfi eigi að vera skilvirkt. Þetta frumvarp miðar að því og sömuleiðis er hér verið að eyða gömlum draugum sem verndarstefna fyrri hluta þessarar aldar hefur skilið eftir. Ég vona að menn klári þetta. Ég ætla ekki lengja umræðuna að sinni. Þetta mál fer væntanlega til efnahags- og viðskiptanefndar og ég áskil mér rétt til að taka til máls aftur við 2. umr. Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.