144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:44]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég er með tvær spurningar til þingmannsins. Í fyrsta lagi brá fyrir stefi sem hefur gert vart við sig í nokkrum ræðum sjálfstæðismanna í þessari umræðu og það er stefið „Virðisaukaskattskerfið er ekki góð leið til tekjujöfnunar“.

Gott og vel. Síðan segir hv. þingmaður: Tekjuskattskerfið er betra kerfi til þess arna. Þá spyr ég í fyrsta lagi: Er mikilvægt að jafna kjör í samfélaginu? Er það markmið í sjálfu sér að jafna kjör í samfélaginu? Í öðru lagi: Ef hv. þingmaður er þeirrar skoðunar að það sé verðugt markmið, og að tekjuskattskerfið sé gott til þess, telur hann þá að þar sé vit í að beita þrepaskiptu tekjuskattskerfi til þess að ná jöfnunarmarkmiðum eins og títt er í þeim löndum sem helst kenna sig við norræna velferð?

Þetta í fyrsta lagi og svo er það í öðru lagi stóra ráðgáta þessarar umræðu sem eru fyrirvarar Framsóknarflokksins sem hafa ekki komið fram í umræðunni enn þá þó að hæstv. forsætisráðherra hafi nefnt þá í umræðu í Kastljósi og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hafi talað um að allur þingflokkur Framsóknarflokksins hafi gert fyrirvara við málið. Forsætisráðherra segir að hann vilji að breytingarnar leiði til aukins ráðstöfunarfjár heimilanna í fyrsta lagi og í öðru lagi að breytingarnar leiði til lækkunar verðlags. Það væri sannarlega til gagns ef hv. þingmaður gæti svarað því hvort hann sé sammála þessum meginprinsippum hæstv. forsætisráðherra.