144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:47]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að fjalla ekki um aðra lagabálka en þá sem eru hér til umræðu og til breytinga þannig að fjalla hér um tekjuskatt tel ég að sé bara ekki til umræðu í þessu að öðru leyti. Ég skal hins vegar svara þeirri grundvallarspurningu að ég tel nauðsynlegt og verðugt verkefni að jafna kjör að svo miklu leyti sem það er hægt. En hins vegar eru einhver mörk á því.

Að spyrja mig um fyrirvara Framsóknarflokksins, í guðanna bænum ekki ræða við mig um hugmyndir Framsóknarflokksins. Ég held ég hafi einhvern tíma heyrt í hv. þingflokksformanni Framsóknarflokksins, og ég vona að rétt sé munað. Þingmaðurinn hafði orð á því að Framsóknarflokkurinn mundi greiða atkvæði eins og pólitískir vindar mundu blása þegar fram í sækti og hvað almenningur vildi, þannig að sannfæringin var ekki mikil þar. Ég hef lokið máli mínu.