144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:48]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni snöfurmannlegt og hreinskiptið svar. Í fyrsta lagi varðandi tekjuskattsumræðuna er erfitt að taka hana algjörlega úr samhengi enda var það hv. þingmaður sjálfur sem nefndi tekjuskattinn sem leið til tekjujöfnunar. Væntanlega og vonandi fáum við betri tækifæri til þess að ræða þau mál sérstaklega.

Vegna þess sem hv. þingmaður nefndi hér, um fyrirvara Framsóknarflokksins, spurði ég ekki um þá, hverjir þeir væru beinlínis. Ég spurði hv. þingmann hvort hann væri sammála því sem hæstv. forsætisráðherra sagði, að hann liti á sem meginprinsipp þessara breytinga, þ.e. að þau prinsipp þyrftu að vera fyrir hendi til að hægt væri að samþykkja málið að lokum, eins og ég skildi hæstv. forsætisráðherra. Í fyrsta lagi að breytingarnar mundu leiða til aukins ráðstöfunarfjár heimilanna og í öðru lagi að breytingarnar mundu leiða til lækkunar verðlags. Þetta var það sem hæstv. forsætisráðherra Íslands sagði í Kastljósi á dögunum. Það er þingmanninum til upprifjunar sá forsætisráðherra sem situr með hans stuðningi og stýrir ríkisstjórn sem hv. þingmaður hefur stutt bæði í orði og verki.

Það væri áhugavert að vita. Eins og ég sagði áðan glímum við við nokkra ráðgátu, þ.e. óorðaðan fyrirvara Framsóknarflokksins og síðan að reyna að spá í þau spil hvernig framvinda og örlög þessara frumvarpa verða við atkvæðagreiðsluna. Af því að hv. þingmaður er í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar er áhugavert að heyra hvort hann deilir þessum sjónarmiðum með hæstv. forsætisráðherra. Og þá er ég ekki að spyrja um veður og vinda í huga eða orðum eða æði annarra framsóknarmanna.