144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:54]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn hefur óskaplega gaman af því að heyra mig tala um Framsóknarflokkinn. Ég ætla ekki að gera honum það til geðs. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að skemmta hv. þingmanni með þessu, ég skal tala við hann um ýmislegt annað, frjálslegt vaxtarlag o.fl. ef hann vill það. Ég var fyrst og fremst að vitna í viðtal við hv. þingflokksformann sem ég gat ekki skilið með öðrum hætti.

Hvort það sé í lagi að tekjulágir hópar liggi óbættir hjá garði þá tel ég að svo megi helst ekki vera. Ég vísa til fylgiskjals á bls. 14 og 15 í frumvarpinu eins og það liggur frammi, um áhrif skattbreytinga á ráðstöfunartekjur, þeim er lýst á þeirri opnu. Þær eru alls staðar jákvæðar fyrir þá hópa sem þar eru teknir. Ég tel líka að skilvirkni kerfisins muni bæta stöðu ríkissjóðs til þess að bæta ráðstöfunartekjur heimila enn þá frekar. En ég skal ræða við hv. þingmann undir fjögur augu um þetta sameiginlega áhugamál okkar, Framsóknarflokkinn, en ekki hér í stól.