144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:58]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum virðisaukaskatt, brottfall laga um vörugjöld, breytingu á lögum um tekjuskatt og fleiri breytingar.

Pólitíski veruleikinn sem umlykur þessa umræðu er nokkuð merkilegur að því leytinu til að hér er að dragast upp mjög söguleg mynd sem snýst um það að enn og aftur gerist það að Framsóknarflokkurinn talar við okkur hin í gegnum fjölmiðla en kemur ekki upp í ræðustól þingsins til þess að gera grein fyrir sinni afstöðu. Það er orðið nokkuð ítrekað að svo sé. Það virðist vera þannig að liprara sé fyrir þá að taka upp símtólið og ræða við fjölmiðla en að skiptast á skoðunum hér í þinginu. Það er ekki gott. Það er ekki gott fyrir þingræðið að gera það þannig og gerir að verkum að við hin sitjum dálítið uppi með það að geta í eyðurnar. Ég vil þó nefna það að hv. þm. Willum Þór Þórsson er kominn hér á mælendaskrá fyrstur framsóknarmanna þegar klukkan er að ganga ellefu og ég sé ekki betur en að hv. þm. Frosti Sigurjónsson sé að bætast á mælendaskrána líka. Það er því að draga til verulegra tíðinda hér á ellefta tímanum og ég vil óska þingheimi til hamingju með það.

Það sem er að gerast almennt í þessu frumvarpi og raunar í fjárlagafrumvarpinu líka er að verið er að stíga allnokkur skref sem öll eru í sömu átt, þ.e. frá jöfnuði og félagslegum sjónarmiðum í áttina að meiri þunga á þá hópa sem mestar byrðar bera fyrir og minnst hafa milli handanna. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart, það er sá taktur sem er yfirleitt sleginn og sá dans sem yfirleitt er stiginn þegar hægri flokkar eru við völd. Þess vegna er mikilvægt að við gleymum því ekki að það er það sem er að gerast hér. Hér er verið að stytta atvinnuleysisbótatímabilið, hér er verið að hækka verð á matvælum, hækka verð á heitu vatni og rafmagni, hækka verð á menningu. Hér ber í raun allt að sama brunni.

Hér áðan, þegar við vorum að ræða við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í andsvörum, var sá fókus auðvitað býsna skarpur að í þeirra augum eru skattar fyrst og fremst til óþurftar og leiðinda og ber að reyna að ráðast gegn þeim með öllum mögulegum ráðum, en síður þannig að þeir séu hornsteinn samneyslunnar og hrygglengjan í velferðarkerfinu, leið til þess að skapa tekjur fyrir sameiginlega sjóði og til viðbótar til þess að jafna kjör í landinu. Auðvitað þarf það kerfi að vera sanngjarnt, gagnsætt og skýrt, en það er fyrst og fremst leið til þess að skapa það sem heitir svo fallega „samfélag“, þ.e. félag sem við eigum öll saman og við kjósum okkur fulltrúa til þings til þess að ráða ráðum sínum um bæði öflun og ráðstöfun þessa sameiginlega fjár.

Okkar sýn sem höfum að jafnaði skipað félagslegan væng stjórnmálanna er sú að félagslegt réttlæti og jöfnuður sé eftirsóknarvert út af fyrir sig. Við leitumst við við hverja þá ákvörðun sem við tökum í stjórnmálum að stíga skref frekar í áttina að jöfnuði, frá misskiptingu. Það var ekki einfalt þegar við komum að ríkissjóði eftir hrun þegar tölurnar voru svo stórar að þær verða vonandi aldrei jafn stórar aftur. En þegar þeir reikningar hafa síðan verið gerðir upp jókst jöfnuður á Íslandi á þessum fordæmalausu tímum. Það er í raun og veru ótrúlegt í samanburði við það sem hefur gerst í kreppunni og með viðbrögðum stjórnvalda víða annars staðar í heiminum og ekki síst í Evrópu. Ísland fór því fram með óvenjulegum hætti þannig að eftir var tekið, við jukum jöfnuð í samfélaginu við þessar fordæmalausu aðstæður.

Nú er aftur verið að stíga til baka, nú er verið að stíga í hina áttina. Það minnir okkur á að það skiptir máli hverjir stjórna í samfélaginu og minnir okkur líka á að pólitískar meginlínur skipta máli. Hægri og vinstri eru víddir í stjórnmálum sem skipta máli og sem skipta kannski öllu máli þegar öllu er á botninn hvolft. Víddirnar eru vissulega fleiri, sumir tala um grænar víddir og gráar og aðrir tala um þær víddir sem snúast um frjálslyndi eða stjórnlyndi. En fyrst og fremst hefur sú sýn að samfélagið og jöfnuðurinn skipti meginmáli verið hjartað í jafnaðarmennskunni, sósíalismanum og samvinnustefnunni í gegnum tíðina. Þess vegna hefur Framsóknarflokkurinn stundum verið drjúgur við að standa í ístaðinu þegar þessi mál hefur borið á góma í gegnum tíðina og hefur jafnvel verið í þeirri stöðu að andæfa þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið hvað líkastur sjálfum sér í því að vilja hygla þeim sem meira hafa í samfélaginu á kostnað hinna. Þess vegna vil ég leyfa mér að vona að það séu þær blikur sem eru á lofti í Framsóknarflokknum og í þingflokki Framsóknarflokksins þegar hann í heild er með fyrirvara á málinu.

Hins vegar verður það að segjast eins og er, eins og áður hefur komið fram í umræðunni, að það er mjög óvenjulegt að þingflokkur sé í heild með fyrirvara við mál eins og hér eru til umræðu, þ.e. fjárlagafrumvarpið og tengd frumvörp. Svo lengi sem ég man pólitíska umræðu hefur það bara þýtt eitt: Ef menn styðja ekki fjárlagafrumvarp þá styðja þeir ekki ríkisstjórnina. Það hefur verið mjög skýrt. Þetta er stærsta og mikilvægasta mál ríkisstjórnar á hverjum tíma. Og þegar hv. þm. Ásmundur Einar Daðason segir í samtali við Fréttablaðið á föstudaginn var, að Framsóknarflokkurinn sé í heild með fyrirvara á málinu, og segir svo að málið eigi eftir að fá þinglega meðferð þannig að óvíst sé hvernig það endi, þá er það ekkert smáræði. Þá er það í raun til marks um óvenjulega veika stöðu ríkisstjórnar á hvaða tíma sem hún er við völd.

Það sem verra er og flóknara er að þessir fyrirvarar hafa síðan ekki náðst fram nema í gátum og stöku setningum einstakra þingmanna. Einhverjir hafa talað um virðisaukaskattinn á mat, einhverjir hafa talað um sykurskattinn og niðurfellingu á honum — það gerði hv. þm. Frosti Sigurjónsson — og fleiri hafa verið með stakar meldingar. Hv. formaður fjárlaganefndar gekk meira að segja svo langt til að byrja með að tala mjög skýrt um að hún væri eindregið á móti hækkun matarskattsins. Síðan hefur hún verið í einhverju pólitísku híði, alla vega gagnvart þessu máli, en á föstudaginn var lofaði hún því að hún mundi koma við þessa umræðu, sem núna er farin að síga á seinni hlutann, og þá ætlaði hún að gefa upp afstöðu sína til virðisaukaskattshækkunarinnar. En það bólar ekki á henni á mælendaskránni. Vonandi verða aðrir framsóknarmenn til þess að gera grein fyrir stöðu málsins hvað þetta varðar.

Síðan höfum við rætt um fyrirbærið mótvægisaðgerðir, hverjar þær eru og af hverju þær þurfi og hvernig þeim er beitt. Það er nú svo kúnstugt með það að þingmenn stjórnarflokkanna segja að það þurfi að greina þetta frumvarp, útgjaldahlutann, útgjaldafrumvarpið, þ.e. fjárlagafrumvarpið sjálft, og síðan tekjurnar með tilliti til einstakra tekjuhópa í samfélaginu eða einstakra hópa. Hv. þm. Pétur Blöndal talar um tíu hópa og sumir tala um aðrar félagslegar víddir en tekjur. Það þurfi að fara yfir það. Af hverju þarf að fara yfir það? Jú, vegna þess að sennilega komi frumvörpin með mismunandi hætti niður á einstökum hópum. Og hvaða ályktun ætlum við að draga af því? Jú, ef þetta kemur sérstaklega illa niður á einhverjum tilteknum hópum þá þurfum við væntanlega að beita einhverjum mótvægisaðgerðum, eða hvað? Eða hvert er annars markmiðið með þessari greiningu sem hv. þingmenn hafa talað um?

Hæstv. forsætisráðherra talar um að hann vilji sjá að breytingarnar leiði til aukins ráðstöfunarfjár heimilanna. Hvað heimila? Eru það heimilin í hverri tíund fyrir sig? Hann segir líka að breytingarnar eigi að leiða til lækkunar verðlags. Hvaða verðlags? Ekki verðlags á matvöru, verðlags á tilteknum neysluvarningi eða hvað? Þetta hefur ekki komið fram.

Í því frumvarpi sem hér er til umræðu leynist ein tiltekin mótvægisaðgerð, hækkun á barnabótum. Henni er beint til þess hóps sem eru barnmargar fjölskyldur, þó þannig að tekjutengingin er meiri. Þegar upp er staðið er því um að ræða mjög svipaða stöðu barnabóta í heild eins og var fyrir árið 2013. En það er samt kynnt sem mótvægisaðgerðir. Mótvægisaðgerðir fyrir tekjulágar barnafjölskyldur. Gott og vel. Hvaða greining liggur þar að baki? Hvað ætlum við að gera fyrir þær fjölskyldur þar sem um er að ræða viðvarandi lágar tekjur en engin börn eða hverja aðra þá hópa sem þessi tiltekna mótvægisaðgerð nær ekki til?

Það sama gildir um þá umræðu sem hefur verið hér í dag og að mörgu leyti ágæt við hæstv. fjármálaráðherra um áhrifin af hækkun á virðisaukaskatti á bækur þar sem um er að ræða tungumál sem á sannarlega í vök að verjast, við erum öll sammála því. Við erum öll sammála því að niðurstöðutölur í PISA sýna okkur að við þurfum að herða okkur ef eitthvað er. Hvaða áhrif hefur þá að pota í einstakar breytur eins og t.d. verð á bókum til hækkunar? Er það eitthvað sem þarf að skoða? Kallar það á einhvers konar mótvægisaðgerð og hver yrði hún o.s.frv.?

Þetta þarf væntanlega að ræða en mikið óskaplega væri gott ef hv. stjórnarflokkar gætu gert okkur hinum þann greiða að gera okkur grein fyrir því hvernig það megi vera að flokkarnir standi ekki með stjórnarfrumvarpinu, sem er fjárlagafrumvarpið annars vegar og hins vegar frumvarpið um tekjuöflun. Með hverju standa flokkarnir þá? Hver er þessi niðurstaða sem flokkarnir ætla að standa við?

Við ræðum væntanlega á morgun betur um styttingu atvinnuleysistímabilsins eða seinna í kvöld þar sem fram hefur komið að skortir verulega á samráð við sveitarfélögin. Við munum ræða um S-merktu lyfin þar sem enn og aftur á að sækja pening til þeirra sem eru veikir. Við erum þá að breyta úr þeirri nálgun að lækka skattana og taka í staðinn peninga af þeim sem eru heilbrigðir og snúum því þannig að til að borga heilbrigðisþjónustuna lækkum við þá upphæð en tökum peninga af þeim sem eru veikir. Þarna er verið að tala um 400 milljónir, ef ég man rétt. Fyrir ári voru áform um það að sækja 230 milljónir, minnir mig, til sjúklinga. Þeim áformum var snúið til baka. Þessi hægri sinnaða ríkisstjórn er sama sinnis og hún var fyrir ári, að þetta sé hópur sem eigi að sækja til aukið fé, sækja bara peninga beint í vasann á þessu fólki. Á sama tíma og talað er hér um skattalækkanir sem sérstakt og verðugt markmið stendur til aukin gjaldtaka á þá sem eru veikir.

Það sem fyrir liggur er í raun og veru einfalt, þ.e. að staðreyndin er sú að allir þurfa mat, allir þurfa samfélag, allir þurfa velferðarkerfi, allir þurfa einhvers konar jafnvægi í sínu nánasta umhverfi og í samfélaginu. En með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er alls staðar verið að stíga frá markmiðinu um jöfnuð í áttina að enn frekari félagslegri gliðnun í samfélaginu.

Ég vonast til þess að það verði skýrar eftir því sem þessari umræðu vindur fram og hlakka til að heyra í hv. þingmönnum Framsóknarflokksins um þeirra fyrirvara og heildarfyrirvara þingflokksins, því að það verður áhugavert að sjá út á hvað sá fyrirvari gekk. Ég vonast auðvitað til þess að Framsóknarflokkurinn beri gæfu til þess að muna eftir samvinnuhjartanu í sér þegar þetta mál er annars vegar eins og önnur og verði með okkur vinstri mönnum og jafnaðarmönnum í því að færa þetta mál í átt til félagslegs réttlætis og jöfnuðar, því að það er það sem Ísland á skilið.