144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:16]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef allnokkrum sinnum vísað í forsíðufrétt Fréttablaðsins frá því á föstudaginn var og það hefur enginn hér í þingsalnum hreyft andmælum við því sem þar kom fram þannig að ég veit ekki betur en þetta sé rétt eftir haft.

Í fréttinni segir, með leyfi forseta:

„Mikil andstaða er innan Framsóknarflokksins við hækkun neðra þreps virðisaukaskattskerfisins úr sjö prósentum í tólf. Við breytinguna mun verð á matvælum hækka. „Framsóknarflokkurinn í heild var með fyrirvara á málinu,“ segir Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknar, í samtali við Fréttablaðið. Málið eigi eftir að fá þinglega meðferð þannig að óvíst er hvernig það endi.

Höskuldur Þórhallsson, flokksbróðir Ásmundar, efast um að forsendur frumvarpsins um áhrif skattbreytinganna til góðs standist. „Ég held að það verði að sýna betur fram á að afleiðingarnar verði jafn jákvæðar og fullyrt er. Það er ekki í anda þess sem við höfum verið að gera að hækka matarskatt,“ segir Höskuldur. Að sögn Höskuldar vonast hann til að það myndist samstaða um að breyta þessu með einhverjum hætti. „Ég sat í fjárlaganefnd í fjögur ár og margoft rákum við okkur á það að forsendur stóðust ekki. Að sjálfsögðu vonast ég til að þetta verði dregið til baka.“

Haraldur Einarsson, þingmaður Framsóknar, er einnig efins. „Þetta virðist vera að koma illa við fólk með lágar tekjur. Við munum berjast fyrir því að þetta komi ekki illa við það,“ segir Haraldur og bætir við að tryggja þurfi að ráðstöfunartekjur þeirra efnaminni skerðist ekki. Áður höfðu flokkssystur þeirra, þær Vigdís Hauksdóttir, Sigrún Magnúsdóttir og Elsa Lára Arnardóttir ásamt Karli Garðarssyni, lýst yfir efasemdum.“

Virðulegur forseti. Þannig var þetta á forsíðu Fréttablaðsins á föstudaginn var og það hefur mér vitanlega enginn þingmaður Framsóknarflokksins hreyft andmælum við þessum fréttaflutningi Fréttablaðsins.